Glæsilegur viðsnúningur Grindvíkinga
Grindvíkingar réttu svo sannarlega úr kútnum þegar þeir lögðu Fylkismenn, 3-0, í leik liðanna í Landsbankadeild karla í gær.
Þeir voru greinilega búnir að jafna sig á 8-0 útreiðinni sem þeir fengu gegn meisturum FH í síðustu umferð og komu ákveðnir til leiks á heimavelli sínum. Fylkismenn hafa einnig verið í töluverðri lægð eftir ágætis byrjun og voru auk þess án nokkurra sterkra leikmanna sem eru meiddir eða í banni.
Framan af leiknum bar lítið til tíðinda. Liðin voru ekki að skapa sér mörg færi og voru varnarmenn yfirleitt vel á verði. Baráttan var í fyrirrúmi og ekkert gefið eftir.
Á 19. mínútu fékk Magnús Sverrir Þorsteinsson kjörið færi til að koma heimamönnum yfir er hann fékk boltann fyrir fætur sínar í teig Fylkismanna. Hann náði þó ekki góðu skoti og bægðu varnarmenn hættunni frá.
Á 31. mínútu sýni Bjarni Þorsteinsson glæsileg tilþrif í marki Fylkis þegar hann varði skot/sendingu Roberts Nistroj yfir markið.
Fjórum mínútum síðar dró loks til tíðinda þegar Óskar Örn Hauksson skoraði stórglæsilegt mark með bakfallsspyrnu. Óðinn Árnason gaf stutta fyrirgjöf inn í mannþröng í vítateig Fylkis þar sem Óskar slengdi upp fæti og smellti boltanum í netið framhjá Bjarna.
Eftir markið hljóp heimamönnum kapp í kinn og bættu þeir öðru markinu við á 42. Mínútu þegar Óli Stefán Flóventsson skoraði gott mark með skoti úr teig eftir skemmtilegan samleik við Paul McShane. Staðan 2-0 og Grindvíkingar fögnuðu ógurlega eins og búast mátti við.
Í upphafi seinni hálfleiks var mikill hugur í heimamönnum sem pressuðu vel og mikið um allan völl. Þeir færðu sig þó aftar á völlinn eftir því sem á leið og hleyptu Fylki fullmikið inn í leikinn. Þeir sóttu þó hratt þegar færi gafst til þess og voru oft skeinuhættir við mark gestanna.
Á 79. Mínútu áttu Grindvíkingar stórsókn. Óli Stefán átti hættulegt skot eftir fyrirgjöf frá hægri kanti sem var varið og fékk Eysteinn Hauksson boltann í kjölfarið, en náði ekki að nýta sér færið.
Skömmu síðar fengu Fylkismenn aukaspyrnu á hættulegum stað, en skot Björgólfs Takefusa fór rétt framhjá stönginni. Það var hættulegasta færi Fylkismanna í leiknum, en þeir voru engan veginn að ná taktinum í sóknarleik sínum.
Náðarhöggið kom á 84. mínútu þegar Guðni Rúnar Helgason skallaði knöttinn í eigið mark. Rober Nistroj tók hornspyrnu frá vinstri og fékk boltann aftur út á kanti og sendi fyrir með fyrrgreindum afleiðingum.
Töluverð harka færðist í leikinn á lokamínútunum þar sem pirrings fór að gæta hjá báðum liðum, en öruggur heimasigur var staðreynd. Gaman var að sjá til Suðurnesjamannsins Hauks Inga Guðnasonar, sem er að koma aftur inn í lið Fylkis eftir erfið meiðsli, en hann var sprækur á síðustu mínútunum og átti m.a. gott sláarskot.
Allt annað var að sjá til liðs Grindvíkinga í leiknum og heppnaðist herbragð Milans Stefáns Jankovic, að hafa Óla Stefán í sókninni og Kekic í vörninni, fullkomnlega. Óli Stefán var mjög ógnandi fram á við og Kekic stóð sína pligt með sóma í varnarlínunni ásamt Mathias Jack.
„Þetta var mjög góður sigur og við sýndum mikinn karakter með þessum sigri,“ sagði Milan í samtali við Víkurfréttir í leikslok. „Við skömmuðumst okkar fyrir síðasta leik og náðum sanngjörnum sigri í dag. Þetta er ekki búið og við ætlum að halda okkar sæti í deildinni.“
Óskar Örn var sömuleiðis í skýjunum með sigurinn og markið glæsilega sem hann skoraði. „Þetta er klárlega með þeim betri sem ég hef sett,“ sagði hann og bætti því við að sigurinn hefði verið mikilvægur og viðsnúningurinn á milli leikja algjör. „Ef það var einhvern tíma þörf á að sýna góðan leik þá var það núna.“
Myndasafn úr leiknum má sjá efst á síðunni.
VF-myndir/Þorgils