Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Glæsilegur árangur ÍRB
Þriðjudagur 22. nóvember 2005 kl. 16:20

Glæsilegur árangur ÍRB

Sundfólk ÍRB stóð sig frábærlega á Íslandsmótinu í 25m laug um helgina.

Afraksturinn var eftirfarandi:
Níu Íslandsmeistaratitlar, fimm silfurverðlaun, sjö bronsverðlaun, sex aldursflokkamet, efnilegasti sundmaðurinn, besti unglingaþjálfarinn, fjórir sundmenn valdir til þáttöku á Norðurlandameistarmóti unglinga, þau Marin Hrund Jónsdóttir, Hafdís Ósk Pétursdóttir, Helena Ósk Ívarsdóttir og Guðni Emilsson. Tveir náðu lágmörkum í afrekslandslið SSÍ og þrír nýjir bættust í unglingalandsliðshóp SSÍ, en þar eiga ÍRB-liðar nú átta einstaklinga í þeim hópi.

Þeir sem unnu til Íslandsmeistaratitla voru.
Birkir Már Jónsson 400m skriðsund, 200m flugsund, 200m skriðsund og 100m flugsund.
Helena Ósk Ívarsdóttir 100 og 200m bringusund.
Guðni Emilsson 200m fjórsund.
Erla Dögg Haraldsdóttir 50m bringusund.
Hilmar Pétur Sigurðsson 1500m skriðsund.

Tveir sundmenn félagsins náðu lágmörkum í afrekshóp SSÍ, en það voru þau Birkir Már Jónsson og Erla Dögg Haraldsdóttir.

Sundmenn félagsins slógu sex aldursflokkamet á mótinu og þar má með sanni segja að Soffía Klemenzdóttir hafi verið fremst í flokki, en hún setti þrjú Íslandsmet í meyjaflokki en það var í 50m flugsundi, 200m skriðsundi og 100m fjórsundi. Svandís Þóra Sæmundsdóttir stóð sig líka frábærlega þegar hún stórbætti sig og setti Íslandsmet meyja í 200m flugsundi. Stórefnilegar stúlkur þar á ferð sem væntanlega eiga eftir að gera góða hluti í framtíðinni.

Liðsmenn ÍRB settu einnig tvö aldursflokkamet í boðsundum. Í telpnaflokki í 4 x100m fjórsundi en sveitina skipuðu Marín Hrund Jónsdóttir, Elín Óla Klemenzdóttir, Hafdís Ósk Pétursdóttir og Jóna Helena Bjarnadóttir og í meyjaflokki í 4 x 200m skriðsundi en þá sveit skipuðu Soffía Klemenzdóttir, María Halldórsdóttir, Hildur Ýr Sæbjörnsdóttir og Svandís Þóra Sæmundsdóttir.

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson var valinn efnilegasti sundmaður mótsins en hann var að bæta sig talsvert í baksundsgreinunum og er sannarlega vel að þessum titli kominn. Gríðarlega efnilegur drengur þar á ferð sem væntanlega á eftir að vera í fararbroddi íslenskra baksundsmanna næstu árin ef hann heldur rétt á spilunum.

Eðvarð Þór Eðvarðsson var valinn besti unglingaþjálfari ársins 2005. En hann hefur unnið gríðarlega gott og markvisst starf með yngri kynslóð ÍRB, ekki einungis á þessu ári heldur um árabil.

Að þessu Íslandsmóti afstöðnu á ÍRB tíu sundmenn í hinum ýmsu landsliðshópum SSÍ. Þar eru þeir nú sem endranær í fararbroddi sundfélaga á landinu. Slíkur árangur er frábær og er sundmönnum, þjálfurum, stjórnarmeðlimum, foreldrum, styrktaraðilum og bæjarfélaginu til mikils sóma.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024