Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Glæsilegu Shellmóti lauk í gær
Mánudagur 28. júní 2004 kl. 10:38

Glæsilegu Shellmóti lauk í gær

Shellmótið í knattspyrnu fór fram um helgina og tóku Suðurnesjalið þátt eins og þeir hafa gert undanfarin ár með góðum árangri. Njarðvík, Keflavík og Grindavík mættu öll til leiks með lið og gekk bærilega án þess þó að vinna til titla, enda er aðalmarkmiðið að hafa gaman að. Hæst náði C-lið Keflvíkinga sem varð í þriðja sæti í sínum flokki.

Suðurnesjamenn hlutu hins vegar fjölda einstaklingsverðlauna, m.a. voru Aron Elvar Ágústsson, Keflavík og Ríkharður Guðfinnsson úr Grindavík valdir í lið mótsins.

Auk þess voru veitt verðlaun í hinum ýmsu greinum.

Fjórir Njarðvíkingar fengu viðurkenningar. Sigurþór Þorleifsson sigraði í kappáti og bætti um betur með því að vinna einnig til verðlauna fyrir skothörku. Arnór Svansson vann til verðlauna fyrir knattrak og hann og Aron Breki Skúlason unnu til verðlauna fyrir að skalla á milli. Einnig hlaut  Svanur Þorsteinsson bílstjóri Njarðvíkinga viðurkenningu fyrir lipurleika við akstur.

Elías Már Ómarsson, Keflavík fékk verðlaun fyrir að halda bolta á lofti og félagi hans, Ólafur Ingi Hansson fékk verðlaun fyrir Húla Hopp.

Grindvíkingar fengu einnig sinn skerf þar sem Jens Óskarsson vann í körfuhittni, Arnar Ólafsson í pílukasti og Yrsa Ellertsdóttir fékk viðurkenningu fyrir árangur sinn í þrautabrautinni.

Mótið sjálft fór afar vel fram eins og alltaf þrátt fyrir að leiðindaveður setti strik í reikninginn og allir komu sáttir heim.
Myndir eru af heimasíðu mótsins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024