Glæsilegt lokahóf Keflvíkinga
Lokahóf yngri flokka Keflavíkur haldið síðastliðinn laugardag með pomp og prakt. Nú er veglegt myndasafn frá lokahófinu komið á heimasíðu Keflvíkinga en þar má m.a. sjá myndir af öllum verðlaunahöfum.
Eins og undanfarin ár voru það leikmenn meistaraflokka Keflavíkur sem sáu um að afhenda verðlaunin og að þessu sinni voru það þau Arnór Ingvi Traustason og Karitas Ingimarsdóttir. Leikmenn yngri flokka létu reyndar sitt ekki eftir liggja í viðurkenningunum en leikmenn í 4. flokki pilta gáfu þjálfurum sínum áritaðan bolta að skilnaði og til minningar um árangursríkt sumar og stúlkur sem nú ganga upp úr 4. flokki gáfu þjálfara sínum, Nínu Ósk Kristinsdóttur, skemmtilega gjöf. Þetta má allt sjá í myndasafninu.