Gjafmildar Grindavíkurstúlkur
Grindavíkurstúlkur töpuðu 0-6 gegn sterkum Valsstúlkum á heimavelli sínum í gærkvöldi í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Valur skoraði fyrsta markið eftir hálftíma leik og eftir það opnuðust flóðgáttirnar, mörk á 33. 37. og 39. mínútu fylgdu í kjölfarið og staðan var 0-4 í hálfleik.
Í síðari hálfleik gerðu svo Valsstúlkur út um leikinn með tveimur mörkum en í raun var leikurinn kláraður í fyrri hálfleik. Grindvíkingar eru enn á botni með aðeins 1 stig eftir 10 leiki. Anna Þórunn Guðmundsdóttir fyrirliði Grindavíkur var borin meidd af velli í hálfleik og óvíst hversu alvarleg meiðsli hennar eru.