Gibbs innsiglaði sigur á Stjörnunni
Keflvíkingar stefna ennþá að klára fyrri hluta Íslandsmótsins í efri hluta Bestu deildar karla en þeir unnu góðan 2:0 útisigur á Stjörnunni í kvöld með mörkum frá Frans Elvarssyni og Joey Gibbs.
Eftir frekar tíðindalítinn fyrri hálfleik tók Keflavík snemma í þeim síðari þegar Keflvíkingar brunuðu hratt fram og Adam Ægir Pálsson sendi góða sendingu frá endamörkum fyrir markið þar sem Frans Elvarsson tók vel á móti og setti hann í markhornið (51').
Adam Ægir var aftur á ferðinni skömmu síðar þegar hann átti frábæra sendingu á Joey Gibbs inni í teig, Ástralinn átti góðan skalla í markið (58') og fagnar sínu fyrsta marki síðan í maí.
Stjörnumenn gátu ekki brotið niður varnarmúra Keflavíkur þrátt fyrir ágætis tilraunir en gestirnir voru nærri því að auka muninn þegar Kian Williams fékk upplagt færi eftir sendingu frá Patrik Johannesen en hann tók of langan tíma til að athafna sig fyrir framan mark Stjörnunnar og á endanum varði markvörðurinn.
Það kom ekki að sök og góður útisigur staðreynd, þrjú stig til Keflavíkur sem fer upp fyrir Fram í sjöunda sæti deildarinnar og er nú tveimur stigum á eftir KR sem gerði jafntefli við Skagamenn í dag. Keflavík er í ágætis færi til að lenda meðal efstu sex liða þegar hefðbundinni deildarkeppni lýkur og úrslitakeppni fer í gang eftir aðeins tvær umferðir.