„Getum sjálfum okkur um kennt.“
Snæfell lagði Keflvíkinga að velli, 80-76, í fyrsta leik liðanna í úrlsitum Íslandsmótsins í körfubolta.
Keflvíkingar, sem eru núverandi handhafar titilsins, áttu ekki góðan dag á firnasterkum heimavelli Hólmara. Krafturinn, baráttan og viljinn var allur Snæfells í kvöld og mátti sjá að það er engin tilviljun að þeir eru komnir eins langt og raun ber vitni.
Fremstur allra á gólfinu í kvöld var Hlynur Bæringsson sem var, sem fyrr, óviðjafnanlegur og hirti rúmlega 20 fráköst og lagi þannig grunninn að þessum góða sigri.
Keflvíkingar náðu frumkvæðinu snemma leiks og leiddu allan fyrsta leikhluta þar sem Nick Bradford átti góða innkomu í sókn og vörn. Munurinn var mestur 7 stig, en í lok leikhlutans var staðan 18-23.
Snæfellingar mættu grimmir til leiks í öðrum leikhluta og skoruðu 8 stig í röð og komust yfir 26-23. Keflvíkingarnir voru ekki alveg að finna sig í sóknarleiknum þar sem þeir lögðu ofuráherslu á langskot og voru einnig að missa of marga bolta, eða 13 í fyrri hálfleik einum. Auk þess var Hlynur Bæringsson eins og kóngur í ríki sínu í fráköstum og hélt vel aftur af stóru mönnum gestanna ásamt Edmund Dotson.
Fannar Ólafsson fékk sína þriðju villu áður en langt um leið og varð því að setjast á bekkinn. Leikurinn var í járnum eftir það en heimamenn höfðu alltaf frumkvæðið og höfðu forystu í hálfleik, 41-38.
Um miðjan þriðja leikhluta náði Snæfell öðrum góðum kafla þar sem þeir skoruðu 13 stig í röð og náðu 14 stiga forskoti, 56-42. Keflvíkingar réttu sinn hlut eilítið eftir það þar sem Gunnar Einarsson átti fínar rispur, en munurinn hélst í um fimm stigum þar til yfir lauk.
Að vísu höfðu Keflvíkingar tækifæri á að fá eitthvað úr leiknum þegar þeir áttu sókn þegar 15 sekúndur lifðu enn af leiknum og munurinn var þrjú stig, en þeir misstu boltann og Snæfell var öruggt með sigurinn.
Falur þjálfari sagði að þeir gætu sjálfum sér um kennt hvernig fór. „Þeir voru grimmari allan leikinn og áttu þennan sigur skilið. Við leyfðum þeim að taka 19 sóknarfráköst sem er allt of mikið og skora 13 stig í röð í þriðja leikhluta. Við hefðum getað gert betur að ýmsu leyti í kvöld, en nú þýðir ekki að væla heldur þurfum við að fara að hugsa um næsta leik.“
Annar leikur liðanna verður í Keflavík á laugardaginn.
Stigahæstir:
Snæfell: Corey Dickerson 33, Hlynur Bæringsson 12, Edmund Dotson 12.
Keflavík: Derrick Allen 31, Nick Bradford 20, Gunnar Einarsson 13.