Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Geta klárað dæmið á heimavelli
Þriðjudagur 22. apríl 2008 kl. 00:30

Geta klárað dæmið á heimavelli


Keflavík getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik nk. fimmtudag eftir að þeir lögðu Snæfell í öðrum úrslitaleik liðanna í kvöld, 83-98. Keflavík vann einnig fyrsta leik liðanna en þrjá leiki þarf til að sigra. 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikurinn var spennandi og skemmtilegur á að horfa, en stigin fimmtán sem skildu liðin að í lok leiks gefa ekki rétta mynd af leiknum. Snæfell gerði fyrstu fjögur stig leiksins, em Keflvíkingar svöruðu að bragði með 7 stigum í röð. Í stöðunni 9-9 gerði Gunnar Einarsson svo 8 stig í röð og gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi.

 

Sóknarleikur Snæfellinga í fyrri hálfleik var hreint ekki til eftirbreytni þar sem þeir misstu boltann hvað eftir annað í hendur Keflvíkinga sem gáfu engin grið. Snæfellingar héngu inni í leiknum nær eingöngu vegna frammsitöðu Jóns Ólafs Jónssonar sem kom sterkur inn af bekknum og skoraði grimmt í öðrum leikhluta.

Hann kveikti í sínum mönnum sem sóttu verulega á undir lok hálfleiksins og minnkuðu muninn í 2 stig, 42-44 í hálfleik.

 

Þó Keflvíkingar væru yfir í hálfleik voru engu að síður blikur á lofti þar sem allir stóru menn þeirra voru komnir með þrjár villur. Sigurður Ingimundarson þyrfti því að laga leik sinna manna að því.

 

Hlutirnir voru ekki að falla með Keflvíkingum í upphafi seinni hálfleiks þar sem Justin Shouse kom sínum mönnum yfir, 45-44 og Jón Norðdal og Anthony Sunjara fengu báðir sína fjórðu villu.

Þá var hins vegar komið að þætti Tommys Johnson sem setti á sannkallaða flugeldasýningu. Hann gerði 16 stig í leikhlutanum, þar af 4 þriggja stiga körfur, og sá til þess að halda Snæfellingum í hæfilegri fjarlægð.

 

Á meðan jukust villuvandræði hjá báðum liðum, en Gunnar Einarsson fékk sína fjórðu villu sem og Jón Ólafur hjá Snæfelli. Dómgæslan hallaði kannski ekki mjög á annað liðið en dómararnir hefðu getað látið leikinn flæða betur með færri flautum.

 

Fyrir lokaleikhlutann var munurinn 9 stig, 64-73 og má segja að Snæfellingar hafi aldrei náð stjórn á leiknum. Þeir áttu góðan 13-6 kafla þar sem þeir minnkuðu muninn miður í 5 stig. Þá voru Jón Norðdal, Anthony Susnjara, Sigurður Þorvaldsson og Gunnar Einarsson farnir útaf með 5 villur hjá Keflavík sem og Jón Ólafur hjá Snæfelli.

 

Í þeirri stöðu skaust Magnús Þór Gunnarsson fram eins og skrattinn úr sauðaleggnum og setti niður stærðarinnar þrist sem slökkti endanlega í heimamönnum. Hann hafði varla sést síðan í ÍR leikjunum en skilaði þar sínu á örlagastundu.

 

Magnús, Johnson og BA Walker kláruðu svo leikinn fyrir Keflvíkinga sem fögnuðu verðskuldað eftir að lokaflautið gall.

 

Ekki er annað hægt en að kalla þennan sigur sannkallaðan sigur liðsheildarinnar hjá Keflavík þar sem flestallir leikmenn gerðu sitt. Gunnar, Johnson, Walker fóru fyrir liðinu í stigaskorun, en Sigurður Þorsteinsson var einnig gríðarlega mikilvægur í baráttunni undir körfunni þar sem hann tók 9 fráköst.

 

Snæfellingar hafa hins vegar margt að skoða fyrir þriðja leikinn ef ekki á að enda illa hjá þeim. Fjölmargir lykilleikmenn brugðust og leikskipulagið, sem þeir eru alræmdir fyrir, brást á löngum köflum. Jón Ólafur var þeirra ljós í myrkrinu, en Justin Shouse átti líka góðar rispur þó hann gerði sig of oft sekan um mistök í sókninni. Hlynur Bæringsson lét lítið á sér bera sem er afar einkennilegt í ljósi þess að stóru menn Keflvíkinga voru í villuvandræðum allan leikinn.

 

Nokkuð víst er að spennustigið verður gífurlega hátt í Toyotahöllinni á fimmtudag þar sem Keflvíkingum gefst færi á að hampa bikarnum á heimavelli í fyrsta sinn síðan árið 2004. Snæfellingum dugar ekkert annað en toppframmistaða ef þeir ætla ekki í sumarfrí. Slíku var ekki fyrir að fara hjá þeim í kvöld.

Tölfræði leiksins

 

VF-myndir/ [email protected]