Gera atlögu að stóru titlunum
-Grindvík eina Suðurnesjaliðið í bikarúrslitum
Ríkjandi bikarmeistarar Grindavíkur tryggðu sér farseðil í Laugardalshöllina annað árið í röð með því að leggja Stjörnuna að velli í undanúrslitum bikarkeppni kvenna. Grindvíkingar unnu öruggan 20 stiga sigur, 77:57 en munurinn var þegar orðinn 25 stig í hálfleik. Mótherjar Grindvíkinga í úrslitum verða Snæfellingar sem lögðu Keflvíkinga í hinum undanúrslitaleiknum. Hjá körlunum áttu bæði Grindvíkingar og Keflvíkingar möguleika á því að mætast í úrslitum. Grindvíkingar töpuðu hins vegar á heimavelli gegn KR á meðan Keflvíkingar lágu gegn Þórsurum í Þorlákshöfn.
Metnaðurinn liggur í þjálfun
Daníel Guðni Guðmundsson er þjálfari kvennaliðs Grindavíkur. Daníel sem er menntaður íþróttasálfræðingur er á sínu fyrsta ári sem þjálfari meistaraflokks. Hann hefur verið leikmaður lengi en aðeins þjálfað 7. flokk og minibolta áður. Hann segir að metnaður sinn liggi í þjálfun og svo geti vel farið að hann muni hætta körfuboltaiðkun að loknu þessu tímabili. Bæði þá vegna anna en skrokkurinn er einnig farinn að gefa eftir hjá þessum 29 ára gamla leikmanni. Hann segir það talsvert púsluspil að leika með meistaraflokki Grindavíkur og sjá um þjálfun kvennaliðsins. Margoft hefur hann rekið sig á og segist vera óðum að læra inn á nýja starfið.
Heilahristingar og árekstrar
„Ég hef lítið náð að stilla upp sama liðinu tvo leiki í röð. Á tímabili var ég með þrjá leikmenn sem fengu heilahristing. Síðan lenti hálft liðið í aftanákeyrslu á leið á landsleik. Ég hef verið í þessu lengi en veit ekki til þess að lið hafi lent í einhverju svona. Þetta er fullmikið,“ segir Daníel. Liðið setti sér markmið um að komast í Laugardalshöll og hafna í einu af efstu fjórum sætum deildarinnar. Daníel hefur farið nokkrum sinnum í Höllina sem leikmaður. „Þegar maður er leikmaður þá er maður bara að hugsa um sjálfan sig. Nú þarf ég að hugsa um 12 leikmenn og undirbúa þær fyrir verkefnið. Það er krefjandi.“ Daníel metur möguleika Grindvíkinga mikla fyrir því að gera atlögu að Íslandsmeistaratitlinum auk bikarmeistaratiilsins, svo framalega sem liðið nái að halda heilsu og nái að halda þeim takti sem nú er.