Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Geng stoltur frá borði
Fimmtudagur 8. nóvember 2007 kl. 14:53

Geng stoltur frá borði

Grindvíkingurinn Óli Stefán Flóventsson mun leika með Fjölni í Landsbankadeild karla á næstu leiktíð. Óli mun gera tveggja ára samning við félagið og tjáði hann Víkurfréttum að þó ákvörðunin hafi verið erfið þá hafi hún verið tímabær.

 

Óli Stefán var fyrirliði Grindvíkinga í sumar og fagnaði með gulum sigri í 1. deild. ,,Það er ekki algengt að menn spili sinn feril nánast linnulaust hjá uppeldisfélaginu eins og ég en ég lít á það sem forréttindi og að hafa lyft upp bikarnum í mínum lokaleik fyrir klúbbinn var bara toppurinn,” sagði Óli en hver var helsta ástæðan fyrir því að hann ákvað að ganga til liðs við nýliða Fjölnis.

 

,,Ég er búsettur í Grafarvogi og það var bara orðið þannig að það fór of mikill tími í þetta. Þá var þetta líka mikill tími frá fjölskyldunni en á sumrin er eldri sonur minn, Patrekur Darri, hjá mér og oftast þegar ég var að koma heim þá var hann farinn að sofa,” sagði Óli en Patrekur Darri býr á Neskaupsstað yfir vetrartímann. Nú munu þeir feðgar hinsvegar sameinast í Grafarvogsliðinu. ,,Patrekur er búinn að tilkynna mér það að hann ætli að spila mér Fjölni í yngriflokkunum í sumar,” sagði Óli hressi í bragði en hvernig gekk viðskilnaðurinn við Grindavík.

 

,,Það er engin kergja í gangi og Grindavík sýndi þessu fullan skilning en þeir voru vissulega svekktir. Ég er þeim mjög þakklátur fyrir að gera mér þetta ekki erfiðara,” sagði Óli sem er 31 árs gamall og Grindvíkingur í húð og hár. ,,Ég hefði getað farið í fyrra en það hefði verið rangt af mér að gera það. Fyrst við féllum ákvað ég að klára samninginn minn við félagið og geng nú stoltur frá borði,” sagði Óli en Grindvíkingar leika í Landsbankadeildinni á næstu leiktíð.

 

,,Það eru skiptar skoðanir á skiptum mínum yfir í Fjölni svona eins og gengur og gerist á meðal stuðningsmanna. Það hefði verið gaman að ná 200 úrvalsdeildarleikjum með Grindavík,” sagði Óli en ætli hann slái það met ekki bara í Grafarvoginum á næstu leiktíð.

 

Að yfirgefa Grindavík var ekki auðvelt fyrir Óla en allar aðstæður voru fyrir hendi hjá honum fyrir því að ganga til liðs við Fjölni. ,,Ég hef keyrt á milli í þrjú ár og það var ekki fyrr en núna sem ég fékk endanlega nóg af því. Ég skoðaði meira að segja þann möguleika á að flytjast til Grindavíkur en það gekk ekki. Sömuleiðis er ég í námi í Reykjavík og það tekur mig nákvæmlega fjórar mínútur að ganga í Egilshöll,” sagði Óli Stefán Flóventsson, Fjölnismaður. Óli er í sjúkraliðanámi og ef hann fylgist vel með í skólanum er ekki ósennilegt að hann læri að halda sér heilum og góðum nokkrar leiktíðir til viðbótar.

 

VF-Mynd/ Stefán Þór Borgþórsson – [email protected] Óli Stefán í leik með Grindavík síðasta sumar.

 

Texti: [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024