Gauti: „Lalli og Sammy njóta sín í spennu og rugli“
Það er stór íþróttahelgi framundan fyrir Suðurnesjamenn. Tvö lið af Suðurnesjum leika til úrslita í Powerade-bikar KKÍ. Grindavík leikur gegn Stjörnunni í karlaflokki og Keflavík mætir Val í kvennaflokki. Víkurfréttir ætla að hita upp fyrir leikina og hafa viðað að sér spám frá nokkrum aðilum tengdum körfubolta á svæðinu.
Við fengum Gauta Dagbjartsson úr Grindavík til að spá fyrir um úrslit leikjanna. Gauti er einn harðasti stuðningsmaður Grindavíkur og á von á sigri sinna manna gegn Stjörnunni á morgun. Jafnframt spáir hann sigri hjá Keflavík í kvennaflokki.
Keflavík-Stjarnan: Keflavík vinnur hjá kvennaliðunum. Þær eru með besta liðið í ár og svo er eins og það sé komin einhvers konar hefð fyrir þessu hjá þeim. Ungar og efninlegar í bland við góðar og reynslubolta eins og Birnu. Þær munu eflaust þurfa hafa fyrir því en vinna. Gæði Keflavíkur munu vinna gott lið Vals - þær eru bara hrottalega vel mannaðar.
Grindavík-Stjarnan: Grindavík vinnur karlameginn og þannig koma báðir bikararnir heim í hérað - þannig á það að vera! Þessi leikur er nú fyrirfram algjörlega 50/50 en svona fyrir mig og mína þá segi ég að hungrið í mínum mönnum í bland við vel mannað lið verði til þess að við vinnum. Stjarnan þarf nú líka að prufa að tapa bikarúrslitaleik, enginn verður óbarinn biskup sjáðu til. Við unnum fyrstu fjóra bikarúrslitaleikina okkar en erum búnir að tapa síðustu tveim þannig að bikarinn kemur á Þorrablót í Grindavík.
Hvaða leikmenn munu stíga upp í úrslitaleiknum?
Ég held að reynsla Birnu muni leiða Keflavík áfram og svo er náttúrulega alltaf dálítið einvígi á milli kana, en Birna vinnur. Hjá karlaliðunum er þetta erfiðara. Maður náttúrulega fylgist með Justin, hann er oft óþægilega góður í stórum leikjum en hjá mínum mönnum tel réttast að fylgjast vel með fyrirliðanum okkar honum Lalla og svo Sammy. Þeir virðast njóta sín í spennu og rugli. Munurinn hjá kvensunum eru gæði og hefð og það er algjörlega Keflavíkurmeginn. Munurinn hjá körlunum er kannski formið sem er búið að vera á liðunum síðustu leiki. Stjarnan er búin að hökta talsvert en Grindavík á myljandi góðri siglingu. Miðað við þetta ættum við að taka þetta en Stjarnan er keyrð áfram af Teiti sem mun örugglega gíra sína menn í þetta verkefni. Sverrir er nú ekki að fara í sinn fyrsta leik þannig að Grindavík bara vinnur - mig langar það svo svakalega.