Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Garðmenn slógu Keflavík út í bikarnum: Eyþór hetja Víðis
Laugardagur 29. apríl 2017 kl. 16:43

Garðmenn slógu Keflavík út í bikarnum: Eyþór hetja Víðis

„Ég sagði við Sindra að hann væri Garðsari. Hann hikaði síðan og ég las hann,“ sagði Eyþór Guðjónsson, markvörður Víðis í Garði sem var hetja liðsins þegar Garðmenn lögðu Keflvíkinga í Borgunarbikarleik liðanna í Reykjaneshöllinni í dag. Eyþór varði spyrnu Sindra í bráðabana en eftir fimm fyrstu spyrnurnar var staðan 4-4. Garðmenn eru því komnir í 32 liða úrslit eftir þennan óvænta sigur.

Leikurinn í heild var frekar jafn og ekki mikið um góð marktækifæri. Í framlengingu voru þó bæði lið nálægt því að skora. Eftir jafntefli í framlengingu þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar vörðu Sindri Keflavíkurmarkvörður og Eyþór Víðishetja sitt hvort skotið. Úrslitin réðust svo þegar Víðismenn skoruðu í fyrsta bráðabanavítinu en Eyþór varði frá frænda sínum úr Garðinum, Sindra Guðmundssyni. Annar uppalinn Garðsari, Jóhann B. Guðmundsson misnotaði hitt vítið fyrir Keflavík og því er hægt að segja að Garðmenn hafi hjálpað Garðmönnum að komast áfram í Borgunarbikarnum. Leikurinn átti að fara fram á Nettó-vellinum í Keflavík en vegna snjókomu í gær og ástands vallarins í morgun þurfti að færa leikinn inn í Reykjaneshöll. Um 200-300 áhorfendur mættu þangað og fylgdust með leiknum sem var frekar bragðdaufur, þangað til í vítaspyrnukeppninni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VF ræddi við Eyþór markvörð Garðmanna eftir leikinn sem var auðvitað kampakátur. Svo er video af öllum vítaspyrnunum og fögnuði Víðis í lokin.

Eyþór ver hér spyrnu frænda síns, Sindra og tryggir Víði sigur í leiknum. VF-mynd/pket.