Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gamla myndin: Freyr Sverrisson
Fimmtudagur 21. desember 2006 kl. 14:51

Gamla myndin: Freyr Sverrisson

Knattspyrnuþjálfarinn Freyr Sverrisson er fjölhæfur með eindæmum og er næsta viðfangsefni Víkurfrétta í liðnum „gamla myndin.“ Freyr söðlaði nýverið um og hætti knattspyrnuþjálfun hjá UMFN og réð sig til Hauka í Hafnarfirði. Freyr leit við í heimsókn á Víkurfréttir og fræddi blaðamann nánar um meðfylgjandi mynd en hann ku hafa verið liðtækur handknattleiksmaður hér á árum áður.

Aðspurður sagði Freyr að myndin væri úr leik ÍBK og Völsungs í 3. deildinni í handknattleik. „Sveinn Freysson er til varnar og það vill svo skemmtilega til að við erum gamlir leikfélagar frá því að ég var sendur til Húsavíkur til afa og ömmu á sumrin þegar ég var 6-9 ára,“ sagði Freyr.

Fljótlega kom uppúr krafsinu í spjalli við Frey að hann á úrklippuna heima í safninu sínu en þessi mynd birtist í Víkurfréttum árið 1986 og var það Margeir Vilhjálmsson sem tók ljósmyndina. „Við unnum þennan leik 30-20 og ég gerði 10 mörk í leiknum,“ sagði Freyr en í myndatexta sem fylgdi greininni fyrir 20 árum stendur eftirfarandi: „Freyr Sverrisson er hér kominn í dauðafæri gegn Völsungum með einn Völsunginn á hælunum en brást bogalistin sem hann gerði í nokkur skipti í leiknum.“ Mörkin hefðu sem sagt getað orðið mun fleiri en 10 þó flestir handknattleiksmenn prísi sig sæla með þá markatölu á hvern leik í dag.

Liðsfélagar Freys hjá ÍBK á þessum tíma voru m.a. þeir Jón Olsen, Gísli Jóhannsson, Hafsteinn Ingibergsson, Einar Sigurpálsson og Jóhann Gunnarsson. Þetta ár, 1986, hafði ÍBK sigur í 3. deildinni og vann sér sæti í næstu deild fyrir ofan. „Ég held að við höfum hafnað fyrir miðri deild árið eftir. Þetta var í „old days“ þegar handboltinn var og hét í Keflavík,“ sagði Freyr. Blaðamanni varð þá spurn af hverju Freyr teldi að handboltinn hefði lognast út af í bæjarfélaginu. „Það hættu öflugir stjórnarmenn í handboltadeildinni og þannig datt botninn úr þessu. Karfan var einnig að koma mjög öflug upp á þessum tíma,“ svaraði Freyr.

Fyrir þá sem þekkja til Freys þá hefur hann haldið þessum hárstíl sem hann er með á myndinni allar götur síðan Margeir smellti af. Hvernig fer hann að? „Bylgja Sverrisdóttir, systir mín, klippir mig og þetta er eina klippingin sem hún kann. Ég er því nauðbeygður með þennan stíl,“ sagði Freyr léttur í bragði.

Starfið hjá Frey í Hafnarfirði hefur farið vel af stað þar sem hann er yfirþjálfari yngri flokka í knattspyrnu. „Nýja starfið fór vel af stað og það varð snemma mikil fjölgun iðkenda hjá okkur. Nú er hlé á vetrarstarfinu sem hefst svo af fullum krafti snemma á nýja árinu,“ sagði Freyr að lokum.

[email protected]


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024