Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gamla myndin: Freyja Sigurðardóttir
Fimmtudagur 11. janúar 2007 kl. 13:34

Gamla myndin: Freyja Sigurðardóttir

Árangurinn myndi eflaust láta á sér standa ef einhver fengi þá flugu í höfuðið að demba sér út í Fitness íþróttina án þess að búa að góðri reynslu af íþróttum sem krefjast mikils líkamlegs styrks og aga. Freyja Sigurðardóttir hóf íþróttaferil sinn í fimleikum en hún er í dag ein kunnasta Fitnesskona landsins og hefur unnið til fjölda verðlauna bæði í Fitness og fimleikum. Freyja er nú búsett í Álasundi í Noregi með Haraldi Guðmundssyni, sem leikur með knattspyrnuliði Álasunds.

 

Freyja segir okkur aðeins nánar frá meðfylgjandi mynd í liðnum ,,Gamla myndin.”

 

Hvenær hófst þú að stunda fimleika?

Ég byrjaði í fimleikum þegar ég var 9 ára og æfði þangað til ég var 17 ára. Ég var frekar gömul þegar ég byrjaði að æfa fimleika en ég hermdi eftir eldri systrum mínum þeim Sylvíu og Ármey. Þær æfðu fimleika og mér fannst það frekar spennandi.

 

Manstu hver tók þessa mynd?

Nei, ég er ekki viss. En mig minnir að hún var tekin af Palla VF (Páll Ketilsson, eigandi og ritstjóri Víkurfrétta). Eða Hilmu vinkonu úr fimleikunum.

 

Hvenær var myndin tekin?

Á fimleikasýningu í Íþróttahúsinu við sunnubraut held ég. Ég er svona 14 ára á myndinni. Fyndin mynd samt, stelpan alveg að detta af jafnvægisslánni

 

Á hvaða móti eða við hvaða tilefni er þessi mynd tekin?

Þegar fimleikadeildin varð 10 ára þá var haldin sýning og mig minnir að ég hafi verið í þessum flotta fimleikabol á sýningunni :)

 

Hvað finnst þér svona minnisstæðast við fimleikaiðkun þína í Keflavík?

Úff… það var margt en ég held að minnistæðast var það að ég var ekki alveg sú heppnasta alltaf, var óttarlegur klaufi eða svolítið köld og lét mig flakka í allt, sem endaði ekki alltaf vel. Ég brottnaði fjórum sinnum á stóru tá og braut þumalputtann þrisvar sinnum og litla fingur einu sinni. Einnig ökklabrotnaði ég og lenti í kraga eftir að hafa lent á hausnum úr einu heljarstökkinu á stökki. Ég held samt að ég sé að gleyma einhverju sem hinar fimleikastelpurnar gætu munað.

 

En það var samt alveg ótrúlegt hvað ég hafði mikin ághuga á fimleikum því ég bjó í Sandgerði á þessum tíma og við vorum þrjár vinkonur úr Sandgerði sem húkkuðum okkur alltaf á hverjum einasta degi eftir skóla til að komast á æfingar. Það gengu ekki rútur á milli Sangerðis og Keflavíkur og hver æfing stóð í 3-4 tíma þannig að  við sem æfðum fimleika þurftum að nýta alla okkar tíma til að klára heimalærdóm og skipuleggja okkur vel því æfingar voru á hverjum einasta degi. Við sem æfðum saman urðum allar rosalega góðar vinkonur. Sakna þeirra oft.

 

Kemur það sér vel í Fitness Sportinu að hafa verið í Fimleikum?

Já allur minn grunnur og agi kemur frá fimleikum. Fimleikar eru svo góð alhliða styrking og liðkun fyrir líkamann. Ég hefði mjög líklega ekki byrjað í keppa í fitness nema að ég hafi verið í fimleikum.

 

Hvað er framundan hjá þér í Fitnessinu?

Það eru alltaf nóg af mótum til að keppa á í Fitnessinu. Það er mót í Osló í maí og um páskahelgina er Fitnesshelgi á Akureyri og Evrópumót eftir það. Svo er heimsmeistaramót í September og Íslandsmót í Nóvember.

 

En ég veit ekki hvað ég geri þetta árið það kemur allt í ljós, er farin að þjálfa svo mikið hér í Aalesund og þá minnkar tíminn sem ég hef til að æfa sjálf því ég þarf að sinna fjölskyldunni minni líka. Spurning hvort ég hleypi einhverjum öðrum að þetta árið,” sagði Freyja að lokum á léttu nótunum en hún er fyrsti einkaþjálfarinn í Álasundi og hefur því nóg fyrir stafni í Noregi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024