Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Galdra-Baldur sá um FH
Mánudagur 21. ágúst 2006 kl. 00:04

Galdra-Baldur sá um FH

Knattspyrnuáhugamenn hafa fyrir löngu slegið því föstu að FH muni standa uppi sem sigurvegarar í Landsbankadeild karla eftir tímabilið, enda hófu þeir sumarið með miklum látum eins og endranær.

Þó hafa önnur félög verið að finna höggstað á þeim og í kvöld fögnuðu Keflvíkingar mikið eftir að hafa lagt meistarana fyrir framan rúmlega 2000 áhorfendur á Keflavíkurvelli. Mývetningurinn Baldur Sigurðsson skoraði bæði mörk heimamanna, en Atli Guðnason gerði mark FH.

FH-ingar pressuðu stíft í upphafi leiks, en Keflvíkingar stóðu alla þeirra tilburði af sér. Heimamenn áttu tvö góð færi strax á fyrstu 10 mínútunum en Magnús Þorsteinsson átti gott skot eftir samspil við Símun Samuelson sem Daði Lárusson varði í horn.

Símun átti svo sjálfur gott skot af um 20m færi sem Daði sló frá marki. Færeyingurinn átti annars stórleik þar sem hann fékk að leika lausum hala um allan völl og fór oft illa með varnarmenn FH.

Eina markverða færi FH í fyrri hálfleik átti Norðmaðurinn André Lindbæk, en Ómar Jóhansson, markvörður varði skot hans af stuttu færi á 21. mínútu.

Seinni hálfleikur byrjaði á rólegu nótunum líkt og sá fyrri endaði en Ómar var aftur með á nótunum á 62. mínútu þegar hann varði skot Dennis Siim glæsilega.

Á 63. mínútu hefði fyrirliðinn guðmundur Steinarsson getað komið sínum mönnum yfir, en honum tókst á undraverðan hátt að skjóta yfir markið af línunni eftir fyrirgjöf Símuns, sannarlega óheppin þar.

Baldur var hins vegar réttur maður á réttum stað á 67. mínútu þegar Símun gaf stutta sendingu fyrir eftir góða sókn Keflvíkinga. Baldur setti knöttinn í netið framhjá Daða og kom sínum mönnum í 1-0.

Einungis mínútu síðar jöfnuðu FH-ingar og var þar að verki Atli Guðnason sem hafði komið inná sem varamaður áður en leikurinn hófst á ný eftir mark Keflavíkur. Atli fékk góða sendingu fyrir markið frá vinstri og sá við Ómari og jafnaði leikinn.

Keflvíkingar voru þrátt fyrir það betri aðilinn í leiknum og fengu gott færi á 79. mín þegar títtnefndur Símun Samuelson átti skot í þverslána, en þess utan virtist allt stefna í jafntefli.

Það var svo þegar tvær mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma þegar Baldur gerði annað mark sitt og sigurmark Keflavíkur eftir sendingu frá Hólmari Erni Rúnarssyni frá hægri kanti. Skömmu síðar var leikurinn flautaður af við mikinn fögnuð heimamanna.

Óhætt er að segja að Baldur er einn af þeim leikmönnum sem komið hafa mest á óvart í sumar og hann nýtur sín greinilega til fulls þegar hann leikur á miðjunni og skeiðar fram í teiginn þar sem hann er óhemju markheppinn eins og sýndi sig í leiknum gegn Breiðabliki fyrir skemmstu. Baldur hefur oftar en ekki þurft að leysa af í miðverðinum á þeim tíma sem hann hefur verið hjá Keflavík, en nú er spurning hvort hann verði ekki eftirsóttur af liðum erlendis eftir frammistöðu sína undanfarið.

Í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn sagðist Baldur að sjálfsögðu sáttur við sigurinn og mörkin tvö. „Við höfum ekki verið að fá mikið út úr leikjunum okkar við FH undanfarið þrátt fyrir að okkur hafi fundist við spila vel þannig að þetta er mjög ljúft.“

„Nú þurfum við bara að halda okkur á jörðinni og taka hvern leik fyrir sig. Við leikum næst gegn ÍA og þeir eru örugglega brjálaðir í að hefna fyrir tapið í bikarnum um daginn.“

 

Keflavík er í öðru sæti deildarinnar, átta stigum á eftir FH, þegar fjórir leikir eru eftir og mæta ÍA á Skipaskaga í næsta leik á fimmtudag, en nú er framundan erfið törn hjá þeim þar sem þeir leika 3 leiki á 8 dögum.

VF-myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024