Gáfu allt verðlaunafé til góðra mála
Sigurvegarar í Superformi létu gott af sér leiða
Snædís Guðmundsdóttir og Óskar Haraldsson eru sigurvegarar í Superform-áskorun 2014. Eftir að úrslit voru kunngerð ákváðu báðir sigurvegarar að láta allt sitt verðlaunafé renna til góðra málefna. Óskar Haraldsson setti 100.000 krónur í söfnun fyrir æskufélaga sinn Gylfa Örn Gylfason en hann háir hetjulega baráttu við hvítblæði um þessar mundir.
Snædís Guðmundsdóttir gerði slíkt hið sama ásamt því að bæta við öðru eins í nafni fyrirtækis síns Dís íslenskrar hönnunar og að auki gaf verslunin 10-11 inneign að andvirði 100.000 krónur. Snædís ákvað að færa Huldu Ósk Jónsdóttur og Hirti Fjeldsted, vinafólki sínu, alla fjárhæðina en þau eru foreldrar ungs drengs, Stefáns Sölva, sem hefur undanfarið glímt við erfið veikindi og dvelur að mestu leyti inni á Barnaspítala Hringsins. Rausnarlegt framtak hjá þeim báðum.
Áskorunin hófst 15. janúar og stóð yfir í 12 vikur eða þar til á laugardaginn. Árangurinn stóð ekki á sér en keppendur voru undir leiðsögn Sævars Inga Borgarssonar, eiganda Superforms. Þátttakendur lögðu mikið á sig og sneru við blaðinu varðandi hollt mataræði og heilbrigða hreyfingu. Allir keppendur fengu góð ráð um mataræði bæði í fyrirlestrarformi og ráðgjöf í gegnum tölvupóst. Að auki var boðið var upp á fyrirlestur með Hauki Inga Guðnasyni sem ráðlagði um það hvernig er hægt að ná árangri og setja sér raunhæf markmið. Þátttakendur æfa í Sporthúsinu á Ásbrú. Árshátíð Superform var haldin sl. laugardagskvöld þar sem úrslitin voru birt.
Heildarverðmæti verðlauna í keppninni voru hvorki meira né minna en 1,3 milljónir króna en veitt voru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í karla- og kvennaflokki.
Eins og fyrr segir voru það Snædís Guðmundsdóttir og Óskar Haraldsson sem enduðu í fyrsta sæti en þau náðu hreint út sagt frábærum árangri og fengu bæði í sinn hlut 100.000 krónur í beinhörðum peningum ásamt veglegum gjafabréfum frá Superform, Sporthúsinu, Nike, Sci Mx, Bláa Lóninu, Sportvörum, Snyrti Gallerý og Cabo. Í öðru sæti urðu Laufey Vilmundardóttir og Einar Orri Einarsson og í þriðja sæti voru Harpa Rós Drzymkovska og Guðni Sigurbjörn Sigurðsson. Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim og öllum hinum keppendunum.