Fyrsti sigur UMFG síðan í júní
Grindvíkingar eru komnir úr fallsæti eftir frækinn heimasigur á KA, 2-0, í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Grindvíkingar unnu þar með sinn fyrsta sigur í deildinni frá því að þeir sigruðu Keflvíkinga í lok júní.
Leikurinn byrjaði rólega og má segja að ekki hafi dregið til tíðinda fyrr en um 20 mín voru liðnar af leiknum. Þá komst Orri Freyr Hjaltalín í upplagt færi en Atli Sveinn Þórarinsson bjargaði í horn. Momir Mileta tók hornspyrnuna fyrir Grindavík og þar kom Sinisa Kekic aðvífandi og skallaði á nærstöngina og í mark, 1-0.
Grindvíkingar voru í öðrum gæðaklassa en KA í fyrri hálfleik og áttu fjölmörg færi til að bæta við mörkum en Sandor Mathus í marki Norðanmanna átti góðan leik og bjargaði sínum mönnum oft fyrir horn.
Mileta komst í gott færi á 26. mín eftir góða sendingu frá Orra Frey en varnarmaður komst fyrir skot hans og bjargaði í horn.
Þá átti Grétar Hjartarson mjög gott skot úr aukaspyrnu stuttu síðar en boltinn fór rétt yfir þverslána.
Orri Freyr átti góðan skalla að marki KA á 33. mín en Mathus gerði vel og varði örugglega.
Paul McShane skoraði fyrir Grindavík á 35. mín en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu og hafði hann eitt og annað út á þann dóm að setja.
Grindvíkingar fóru inn í leikhlé með eins marks forskot en hefðu hæglega getað verið með betri stöðu eftir að hafa haft mikla yfirburði á vellinum.
Kekic gaf tóninn í byrjun seinni hálfleiks þegar hann átti þrumuskot af löngu færi sem Mathus varði yfir. Mathus var svo enn bjargvættur sinna manna á 53. mín þegar hann varði gott langskot frá Grétari.
Eftir rúmlega klukkustundarleik komust Akureyringar meira inn í leikinn þegar Grindvíkingar færðu sig aftar á völlinn. Hreinn Hringsson fékk kjörið tækifæri til að jafna leikinn á 73. mín er Óli Stefán Flóventsson, fyrirliði Grindvíkinga, gerði sig sekan um varnarmistök. Hreinn slapp einn inn í teiginn vinstra megin og skaut föstu skoti en Gestur Gylfason kom á harðaspretti og renndi sér fyrir skotið. Heimamenn gátu prísað sig sæla en jöfnunarmark hefði verið gersamlega úr takti við leikinn og hörð refsing fyrir mistökin.
Færið reyndist eins og vatnsgusa í andlit Grindvíkinga og þeir hrukku í gang á ný. Sigurinn var svo gulltryggður á 83. mínútu þegar Grétar Hjartarson skoraði úr vítaspyrnu sem var dæmd á Atla Svein fyrir að handleika knöttinn innan teigs.
Markið veitti Grindvíkingum þægilegt svigrúm og síðustu mínúturnar voru átakalitlar.
Óli Stefán Flóventsson, fyrirliði, fagnaði sigrinum innilega í leikslok. „Við þurftum einfaldleiga að ná 3 stigum úr þessum leik og við gerðum það. Það hefur loðað við okkur í sumar að vera að missa niður forystu en það var mjög sterkt hjá okkur að halda hreinu.“ Óli sagði að þeim hefði brugðið þegar KA-menn fengu dauðafærið á 73. mín en liðsandinn hafi bjargað málunum. „Ég gerði mistök en Gestur kom og bjargaði öllu. Til þess eru félagarnir.“
VF-myndir Hilmar Bragi Bárðarson
Leikurinn byrjaði rólega og má segja að ekki hafi dregið til tíðinda fyrr en um 20 mín voru liðnar af leiknum. Þá komst Orri Freyr Hjaltalín í upplagt færi en Atli Sveinn Þórarinsson bjargaði í horn. Momir Mileta tók hornspyrnuna fyrir Grindavík og þar kom Sinisa Kekic aðvífandi og skallaði á nærstöngina og í mark, 1-0.
Grindvíkingar voru í öðrum gæðaklassa en KA í fyrri hálfleik og áttu fjölmörg færi til að bæta við mörkum en Sandor Mathus í marki Norðanmanna átti góðan leik og bjargaði sínum mönnum oft fyrir horn.
Mileta komst í gott færi á 26. mín eftir góða sendingu frá Orra Frey en varnarmaður komst fyrir skot hans og bjargaði í horn.
Þá átti Grétar Hjartarson mjög gott skot úr aukaspyrnu stuttu síðar en boltinn fór rétt yfir þverslána.
Orri Freyr átti góðan skalla að marki KA á 33. mín en Mathus gerði vel og varði örugglega.
Paul McShane skoraði fyrir Grindavík á 35. mín en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu og hafði hann eitt og annað út á þann dóm að setja.
Grindvíkingar fóru inn í leikhlé með eins marks forskot en hefðu hæglega getað verið með betri stöðu eftir að hafa haft mikla yfirburði á vellinum.
Kekic gaf tóninn í byrjun seinni hálfleiks þegar hann átti þrumuskot af löngu færi sem Mathus varði yfir. Mathus var svo enn bjargvættur sinna manna á 53. mín þegar hann varði gott langskot frá Grétari.
Eftir rúmlega klukkustundarleik komust Akureyringar meira inn í leikinn þegar Grindvíkingar færðu sig aftar á völlinn. Hreinn Hringsson fékk kjörið tækifæri til að jafna leikinn á 73. mín er Óli Stefán Flóventsson, fyrirliði Grindvíkinga, gerði sig sekan um varnarmistök. Hreinn slapp einn inn í teiginn vinstra megin og skaut föstu skoti en Gestur Gylfason kom á harðaspretti og renndi sér fyrir skotið. Heimamenn gátu prísað sig sæla en jöfnunarmark hefði verið gersamlega úr takti við leikinn og hörð refsing fyrir mistökin.
Færið reyndist eins og vatnsgusa í andlit Grindvíkinga og þeir hrukku í gang á ný. Sigurinn var svo gulltryggður á 83. mínútu þegar Grétar Hjartarson skoraði úr vítaspyrnu sem var dæmd á Atla Svein fyrir að handleika knöttinn innan teigs.
Markið veitti Grindvíkingum þægilegt svigrúm og síðustu mínúturnar voru átakalitlar.
Óli Stefán Flóventsson, fyrirliði, fagnaði sigrinum innilega í leikslok. „Við þurftum einfaldleiga að ná 3 stigum úr þessum leik og við gerðum það. Það hefur loðað við okkur í sumar að vera að missa niður forystu en það var mjög sterkt hjá okkur að halda hreinu.“ Óli sagði að þeim hefði brugðið þegar KA-menn fengu dauðafærið á 73. mín en liðsandinn hafi bjargað málunum. „Ég gerði mistök en Gestur kom og bjargaði öllu. Til þess eru félagarnir.“
VF-myndir Hilmar Bragi Bárðarson