Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Fyrsti sigur Njarðvíkur í höfn
Laugardagur 12. júní 2010 kl. 00:06

Fyrsti sigur Njarðvíkur í höfn

Njarðvíkingar lönduðu sínum fyrsta sigri í 1. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu með sigri á HK á Njarðtaksvellinum í kvöld. Þetta var fyrsti sigur liðsins í Íslandsmótinu í ár og var hann vel verðskuldaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Liðin fengu 2 hornspyrnur hvort á upphafsmínútunum en ekkert kom úr þeim. Þau skiptust á að sækja án þess þó að skapa sér alvöru færi. Njarðvíkingar fengu aukaspyrnu fyrir utan vítateig eftir að brotið var á Óla Jóni Jónssyni. Kristinn Björnsson, fyrirliði Njarðvíkinga, átti þrumufleyg beint á markið sem Ögmundur Ólafsson markvörður HK varði og varnarmennirnir hreinsuðu boltann af hættusvæði.

Fyrsta alvöru færi leiksins kom á 18. mínútu eftir sendingu Einars Vals Árnasonar inn fyrir vörn HK þar sem Ísak Örn Þórðarsson var mættur en viðstöðulaust skot hans fór beint á Ögmund sem átti ekki í miklum erfiðleikum með boltann. HK-ingar fengu nokkrar hornspyrnur sem ekkert varð úr. Á 35. mínútu vildu þeir fá vítaspyrnu eftir að Aaron Palmares kom með fyrirgjöf utan af hægri kanti, boltinn hafði viðkomu í Rafni Markúsi Vilbergsson og fór útaf vellinum við endamörk. Gestirnir vildu hins vegar meina að knötturinn hafi farið í hendi Rafns áður en að hann fór útaf. HK-ingar fengu svo aukaspyrnu fyrir miðju á vallarhelmingi heimamanna en skot Hólmberts Arons Friðjónssonar fór beint á Ingvar Jónsson markvörð, sem greip boltann örugglega.

Ben Long átti svo ágætt skot fyrir utan teig HK eftir sendingu frá Ísaki Erni Þórðarssyni en skot hans fór rétt framhjá fjærstönginni. Gestirnir voru þó nærri því að komast yfir á 44. mínútu. Hólmbert Aron var með boltann fyrir utan vítateig heimamanna, sneri Kristinn Björnsson af sér og skaut boltanum í boga í fjærhornið en Ingvar Jónsson var með markvörslu á heimsmælikvarða og sló boltann framhjá stönginni. Staðan var 0 – 0 í hálfleik.

Liðin skiptust á að sækja í síðari hálfleik en það vantaði endahnútinn á sóknirnar, enda voru varnir liðanna vel skipulagðar og með á nótunum. Það dró þó til tíðinda á 59. mínútu. Njarðvíkingar unnu boltann í eigin vítateig, spiluðu upp völlinn þar sem Árni Ármanns fékk knöttinn og sótti upp vinstra megin með tvo HK-inga aftan í sér en kom þó boltanum á kantinn á Einar Helga Helgason sem sendi boltann fyrir og þar var Ísak Örn Þórðarsson mættur inn í teig og skallaði knöttinn framhjá Ögmundi í markinu og heimamenn komnir yfir 1 – 0.

Eftir markið bökkuðu Njarðvíkingar fullmikið tilbaka og gestirnir færðu sig framar á völlinn og dældu boltanum inn í teig en Njarðvíkingar hreinsuðu boltann í burtu. Njarðvíkingar skoruðu svo aftur á 89. mínútu eftir innkast frá Haraldi Axeli Einarssyni á eigin vallarhelmingi, boltinn barst inn fyrir vörn HK sem var kominn fullframarlega. Ólafur Jón Jónsson var fyrstur að átta sig og var kominn einn innfyrir, lagði boltann á vinstri við vítateiginn og renndi honum svo í hægra hornið framhjá Ögmundi sem kom engum vörnum við.

Fyrsti heimasigur Njarðvíkinga er staðreynd og voru strákarnir vel að honum komnir. Barátta í 93 mínútur og hverrgi bangnir minntu Njarðvíkingar á að þeir væru ekki búnir að gefast upp.

Texti af heimasíðu Njarðvíkur.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Myndasafn úr leik Njarðvíkur og HK