Fyrsti sigur Keflvíkinga í tvö ár
Ekki unnið síðan í ágúst 2012
Keflvíkingar unnu í dag sinn fyrsta sigur í deildarkeppni kvenna síðan í ágúst árið 2012. Sigurinn langþráði kom gegn BÍ/Bolungarvík á útivelli en lokatölur urðu 0-1. Það var Marín Rún Guðmundsdóttir sem skoraði mark Keflvíkinga í leiknum.
Liðið sem leikur í 1. deild vann ekki einn einasta leik á tímabilinu í fyrra og ekki hafði tekist að innbyrgða sigur í ár. Skiljanlega voru stúlkurnar því ánægðar með sigurinn. „Þetta var mikil gleði og þær fögnuðu vel og lengi. Við fengum bara eitt stig í fyrra þannig að þetta er töluverð bæting“ sagði Heiðar Birnir þjálfari liðsins léttur í bragði í samtali við blaðamann Víkurfrétta. Hann segir að liðið hafi verið að leika vel að undanförnu en úrslitin hafi ekki verið eftir því. „Nú gekk allt upp og sigurinn hefði hæglega getað orðið mun stærri enda átti markvörður þeirra stórleik. Ég var mjög ánægður með stelpurnar í þessum leik,“ bætti þjálfarinn við. Næsti leikur Keflvíkinga er svo gegn Grindvíkingum á heimavelli á miðvikudag. Síðast þegar liðin áttust við þá unnu Grindvíkingar 2-0 sigur.
Hlaut að koma að þessu!! Fyrsti sigurinn í tvö ár! BÍ/Bol 0-1 Keflavík👌 #fotbolti
— Arndís Ingvarsdóttir (@arndisingvars) August 9, 2014