Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrsti sigur Keflvíkinga í höfn!
Keflvíkingar fönguðu innilega í kvöld. VF-myndir/pket og hilmarbragi.
Sunnudagur 7. júní 2015 kl. 21:47

Fyrsti sigur Keflvíkinga í höfn!

Góð byrjun hjá nýjum þjálfurum. Allt annar bragur á leik liðsins.

Keflavík og ÍBV mættust í sannkölluðum botnslag á Nettóvellinum fyrr í dag þar sem að heimamenn lönduðu sínum fyrsta sigri í sumar og það nokkuð sannfærandi, 3-1. 

Nýjir þjálfarar stigu sín fyrstu spor sem þjálfarar meistaraflokksliðs og þeir Haukur Ingi og Jóhann Birnir gerðu nokkrar breytingar á liðinu í sínum fyrsta leik, t.a.m. var markvörðurinn Richard Arends ekki í leikmannahópnum vegna meiðsla og fékk Sindri Kristinn Ólafsson að byrja í hans stað. Stefán Guðberg Sigurjónsson var til taks á bekknum ef skipta þyrfti um markmann. Jóhann Birnir var sjálfur ekki í leikmannahópi Keflavíkur og ljóst að hann vildi frekar einbeita sér að þjálfaraskyldum sínum. Þá kom Kiko Insa aftur inn í liðið og Sindri Snær Magnússon fór í stöðu hægri bakvarðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar byrjuðu leikinn mun betur og voru við stjórnvölin fyrstu 15 mínúturnar. Hólmar Örn Rúnarsson fékk sannkallað dauðafæri á 10. mínútu leiksins þegar boltinn barst til hans í miðjum markteignum eftir góða sókn en Hólmar lét verja frá sér í það skiptið og vissi að hann hefði átt að gera betur. Eyjamenn nýttu meðvindinn illa til að byggja upp sóknir og var Einar Orri Einarsson fastur fyrir á miðjunni hjá Keflvíkingum og stöðvaði meira og minna allt sem kom í gegnum miðsvæðið.

Það var svo á 19. mínútu leiksins sem að Keflvíkingar brutu ísinn þegar Sigurbergur Elísson þjarmaði að bakverði ÍBV og náði af honum boltanum við vítateigsendann og komst í þröngt færi gegn markverði ÍBV. Sigurbergur var yfirvegaður þegar hann renndi boltanum á óvaldaðann Hörð Sveinsson sem kom boltanum í netið þrátt fyrir að hafa átt viðkomu í varnarmanni Eyjamanna. Keflvíkingar fögnuðu markinu vel og innilega og greinilegt að ákveðinni pressu var lét af liðinu að komast yfir í leik en það gerðist síðast á móti Breiðablik í 3. umferð.

Fátt markvert gerðist næstu 10 mínútur leiksins en gestirnir komust betur inn í leikinn og stjórnuðu spilinu án þess að ná að koma sér í ákjósanlegt færi. Á 31. mínútu braut Haraldur Freyr Guðmundsson á Ian Jeffs innan teigs og fékk gult spjald að launum og Eyjamenn fengu vítaspyrnu. Úr henni skoraði Jonathan Glenn og staðan því orðin jöfn, 1-1. Sigurbergur Elísson átti svo hættulegasta færið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks þegar hann tók á Jón Ingason í varnarlínu ÍBV og kom sér í gott skotfæri en skot hans fór rétt framhjá. Sigurbergur átti fína spretti í fyrri hálfleiknum og var hættulegur í hvert skipti sem hann fékk boltann. Staðan var þó enn 1-1 og þannig fóru liðin til búningsherbergja í hálfleik.

Keflvíkingar léku undan vindi í síðari hálfleik og stjórnuðu spilinu. Hörður Sveinsson skapaði sér ákjósanlegt skotfæri á 55. mínútu þegar hann átti gott hlaup með boltann en skot hans hafnaði í utanverðri stönginni og lukkudísirnar ekki á bandi heimamanna í það skiptið. 5 mínútum síðar skoruðu Keflvíkingar annað mark sitt þegar boltinn barst til Einars Orra Einarssonar eftir hornspyrnu og þakkaði pilturinn fyrir sig með því að hamra boltanum upp í þaknetið af stuttu færi. Óverjandi.

Eyjamenn færðu sig framar á völlinn til að freista þess að jafna metin en í stað þess að klára færin sín voru það Keflvíkingar sem veittu þeim náðarhöggið á 82. mínútu þegar Leonard Sigurðsson skoraði frábært mark eftir virkilega vandaða sókn heimamanna. Samuel Hernandes átti þá góða sendingu frá vinstri kanti á Sigurberg Elísson sem átti eitraða snertingu til að tía upp Leonard sem að klíndi boltanum í stöngina og inn. Frábær sókn og leikgleðin í fyrirrúmi hjá Keflvíkingum sem að höfðu aðeins skorað þrjú mörk í 6 leikjum fyrir leik dagsins en höfðu gert jafnmörg í þessum eina leik.

Keflvíkingar héldu svo fengnum hlut eftir þetta og sigldu heim fyrsta sigri sumarsins við dynjandi lófaklapp áhorfenda sem að gátu farið ánægðir heim. Mikil barátta var í liðinu og skein í gegn að menn voru mættir til að leggja sig fram hver fyrir annan. Einar Orri Einarsson og Sigurbergur Elísson voru frábærir í dag og þá má hrósa hinum unga Leonardi Sigurðssyni fyrir sína frammistöðu og þá sér í lagi í síðari hálfleik. Sindri Snær Magnússon leysti stöðu hægri bakvarðar með sóma en sú staða hefur verið Keflvíkingum talsverður hausverkur í sumar og mikil rótering verið í kringum hana. Í heildina má segja að allir hafi skilað sínu og Keflavíkurliðið hafi unnið sannfærandi og sanngjarnan sigur á Eyjamönnum sem hafa verið í vandræðum með varnarleikinn sinn í allt sumar líkt og Keflvíkingar.

Þjálfarar liðsins fengu því óskabyrjun með liðið í dag og eflaust léttir yfir klefanum með kærkomnum sigri en Keflvíkingar jafna þar með Eyjamenn að stigum og borga eilítið inná markareikninginn sem að stóð í vanskilum. „Strákarnir voru frábærir í þessum leik, börðust allir sem einn og léku sína taktík. Vonandi er þetta byrjunin á einhverju meira,“ sagði Jóhann Birnir Guðmundsson, annar þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn í kvöld.

[email protected]

Einar Orri skoraði annað mark heimamanna í síðari hálfleik og kom þeim á bragðið.

Leonard Sigurðsson hefur komið með ferska vinda inn í Keflavíkurliðið. Hann skoraði þriðja markið og gulltryggði sigur Keflavíkur í kvöld.

Jóhann Birnir og Haukur Ingi með Gunnar Magnúsi sem Haukur þakkaði sérstaklega í viðtali eftir leikinn.