Fyrsti sigur Keflvíkinga á Sparisjóðsvellinum í sumar
Í dag tóku Keflvíkingar á móti Val í 20. umferð Pepsi deildar karla á Sparisjóðsvellinum. Leiknum lauk með 3-1 sigri Keflvíkinga og er það fyrsti sigur þeirra í síðustu sex leikjum og jafnframt fyrsti sigur þeirra á nýja grasinu á Sparisjóðsvellinum. Keflvíkingar voru mjög hressir í leiknum, sóttu stíft og báru höfuð og herðar yfir andstæðinga sína. Fyrsta mark leiksins kom á 16. mínútu þegar Andri Steinn Birgisson, leikmaður Keflavíkur, þrumaði boltanum í netið af 20 metra færi. Fimm mínútum síðar komumst heimamenn í 2-0 með glæsilegu marki frá Herði Sveinssyni. Þegar sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fengu Keflvíkingar dæmda á sig vítaspyrnu. Martin Pedersen fór á punktinn og skoraði af öryggi og staðan því orðin 2-1. Hörður Sveinsson var svo aftur á ferðinni á 69. mínútu þegar hann tryggði Keflvíkingum 3-1 sigur eftir góða sendingu frá Guðmundi Steinarssyni.
Eftir leikinn eru Keflvíkingar í 7. sæti deildarinnar með 27 stig, einu stigi minna en Valur sem situr í 6. sætinu. Næsti leikur Keflvíkinga og jafnframt næst seinasti leikur liðsins í mótinu er gegn FH í Kaplakrika sunnudaginn 19. sept og hefst hann klukkan 17:00.
Á Fylkisvelli tóku Fylkismenn á móti Grindvíkingum. Leiknum lauk með 2:0 sigri Fylkis. Fyrra mark leiksins kom á 80. mínútu, það skoraði Davíð Þór Ásbjörnsson en aðeins mínútu síðar kom seinna mark leiksins en það gerði Ingimundur Níels Óskarsson. Eftir leikinn sitja Grindvíkingar í 10. sæti deildarinnar með 20 stig og Haukar í því ellefta með 17 og því mun ráðast í næstu tveim leikjum hvort Grindvíkingar haldi sér í úrvalsdeildinni. Næsti leikur þeirra er gegn KR á Grindavíkurvelli sunnudaginn 19. september og hefst hann klukkan 17:00.
VF-myndir / Sölvi Logason
.
Fleiri myndir í myndasafni á forsíðu vf.is.