Fyrsti sigur Hólmara í Keflavík
Snæfell og Keflavík munu mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla sem hefst þann 15.mars næstkomandi. Snæfellingar gerðu góða ferð í Sláturhúsið í kvöld og báru sigurorð af vængbrotnu Keflavíkurliðinu 81-86. Þetta var fyrsti sigur Snæfellinga í Sláturhúsinu í úrvalsdeild. Þeir Arnar Freyr Jónsson, Tony Harris og Þröstur Leó Jóhannson voru ekki með Keflvíkingum í kvöld sökum meiðsla en þrátt fyrir fjarveru þessara sterku leikmanna sýndu Keflvíkingar góð tilþrif og mikla baráttu. Slæmar ákvarðanatökur á lokaspretti leiksins færðu Snæfellingum sigur sem og sterk liðsvörn gestanna. Keflvíkingar töpuðu einfaldlega of mörgum boltum á lokaspretti leiksins og það nýttu Snæfellingar sér vel.
Leikurinn var hnífjafn frá upphafi til enda og í fyrsta leikhluta skiptust liðin á því að hafa forystuna í hröðum baráttuleik. Snæfellingar áttu fínan lokasprett í fyrsta leikhluta og var staðan 23-29 gestunum í vil þegar leikhlutanum lauk.
Sebastian Hermanier jafnaði metin fyrir Keflvíkinga snemma í 2. leikhluta í 35-35 en lítið var skorað í 2. leikhluta og varnir beggja liða nokkuð þéttar. Svo þéttar reyndar að á tíma ætlaði að sjóða upp úr og máttu dómarar leiksins hafa sig alla við svo ekki kæmi til verulegra riskinga. Keflvíkingar komust yfir 40-38 en Snæfellingar náðu aftur forystunni strax í næstu sókn með þriggja stiga körfu, 40-41. Jón N. Hafsteinsson gerði svo síðustu stig leikhlutans af vítalínunni og minnkaði muninn í 43-45 fyrir leikhlé.
Þeir Magnús Gunnarsson og Sebastian Hermanier voru báðir með 11 stig í hálfleik fyrir Keflavík en varnarjaxlinn Sverrir Þór Sverrisson var kominn með þrjár villur og þurfti því að hafa aðeins hægt um sig í síðari hálfleik. Justin Shouse var með 11 stig fyrir Snæfellinga í leikhléi og Hlynur Bæringsson 10. Jón Ólafur Jónsson var með 8 stig fyrir Snæfell í hálfleik en hann gerði tvær mikilvægar þriggja stiga körfur fyrir Snæfelli í 2. leikhluta á kafla þar sem Keflavík virtist ætla að taka leikinn í sínar hendur.
Leikurinn var í járnum í þriðja leikhluta. Liðin skiptust á því að skora og í tæpar níu mínútur var munurinn ekki meiri en 2 stig. Þegar um tvær mínútur voru til leiksloka náðu Keflvíkingar fjögurra stiga forskoti, 59-55. Skömmu síðar lenti Jón N. Hafsteinsson í háskalegu atviki þegar hann var að bjarga boltanum frá því að fara út af og leikmaður Snæfellinga hljóp undir hann með þeim afleiðingum að Jón skall í gólfið. Jón kom þó aftur inn á leikvöllinn og kláraði leikinn. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 64-59 Keflavík í vil.
Gestirnir úr Stykkishólmi voru fljótir að jafna metin í fjórða leikhluta í 66-66 og eftir það fór leikur heimamanna niður á við. Keflvíkingar voru fremur óværukærir í sókninni og köstuðu boltanum frá sér upp í fangið á Snæfellingum. Það kom í hlut danska leikmannsins Martin Thuesen að veita Keflvíkingum náðarhöggið er hann setti niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 75-84 Snæfell í vil þegar um mínúta var til leiksloka. Snæfellingar fóru svo að lokum með 81-86 sigur af hólmi en Sebastian Hermanier átti tilþrif leikhlutans sem dugðu skammt er hann hitti beint frá miðju um leið og lokaflautan gall.
Hermanier var með 25 stig og 7 fráköst í liði Keflavíkur en atkvæðamestur hjá Snæfellingum var Justin Shouse með 24 stig en Hlynur Bæringsson gerði 20 stig og tók 13 fráköst.