Fyrsti sigur Grindvíkinga með nýjum þjálfara – Keflvíkingar þurftu að sætta sig við jafntefli
Grindvíkingar unnu unnu í dag fyrsta sigur sinn í Lengjudeild karla í knattspyrnu á þessu tímabili eftir hörkuleik gegn Leiknismönnum. Þetta var fyrsti leikur þeirra undir stjórn Haraldar Árna Hróðmarssyni sem tók nýlega við liðinu eftir að Brynjari Birni Gunnarssyni var sagt upp störfum.
Á sama tíma léku Keflvíkingar við Dalvík/Reyni á Dalvíkurvelli en þrátt fyrir að hafa verið að sýna miklar framfarir eftir því sem hefur liðið á tímabilið urðu þeir að sætta sig við markalaust jafntefli – þrátt fyrir að vera manni fleiri allan síðari hálfleikinn.
Fjölnismenn tóku toppsætið af Njarðvíkingum þegar þeir unnu sigur á Þór frá Akureyri.
Leiknir - Grindavík 2:3
Fyrirliðinn Einar Karl Ingvarsson kom Grindvíkingum yfir snemma í leiknum (5') en heimamenn jöfnuðu á 25. mínútu og staðan jöfn í hálfleik (1:1)
Dennis Nieblas Moreno koma Grindavík í forystu á nýjan leik í seinni hálfleik (59') og Dagur Ingi Hammer Gunnarsson skoraði þriðja markið þegar stutt var til leiksloka (84').
Það kom að góðum notum því Leiknismenn minnkuðu muninn fimm mínútum síðar en þar við sat og Grindvíkingar unnu þar með langþráðan sigur.
Grindavík er í sjöunda sæti með sjö stig eins og Dalvík/Reynir en betri markatölu.
Dalvík/Reynir - Keflavík 0:0
Keflvíkingum tókst ekki að fylgja eftir góðri frammistöðu síðustu leikja á Dalvík í dag. Heimamenn misstu mann af velli með rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks þegar hann kýldi Gunnlaug Fannar Guðmundsson í punginn, glórulaust brot sem dómarinn sá ekki. Gunnlaugur lá eftir óvígur og heimamenn sóttu og reyndu skot en boltinn fór af Keflvíking og út af.
Þá stöðvaði dómarinn leikinn til að kanna ástand Gunnlaugs sem kvartaði við dómarann sem brást við með að gefa honum gult spjald. Eftir vandræðalega langan tíma ráðfærði dómarinn sig við aðstoðardómarann, sem var vel staðsettur til að sjá punghöggið, og rak leikmanninn út af í kjölfarið (42').
Þrátt fyrir að vera manni fleiri allan síðari hálfleik náðu Keflvíkingar ekki að nýta sér liðsmuninn og heimamenn voru nærri því að taka öll stigin seint í leiknum þegar þeir náðu að snúa vörn í sókn og sendu góða stungusendingu inn fyrir vörn Keflavíkur en þar var Ásgeir Orri Magnússon, markvörður Keflvíkinga, á tánum og varði vel.
Keflavík situr í sjötta sæti deildarinnar með níu stig.
Leikina má sjá í spilunum hér að neðan.