Fyrsti sigur Grindvíkinga í sumar
Grindvíkingar mættu Breiðablik í 7. umferð Pepsi-deildar karla í Kópavoginum í kvöld. Grindvíkingar gerðu sér lítið fyrir og unnu leikinn 2-3 en liðið lék í kvöld í fyrsta skipti undir stjórn nýja þjálfarans, Ólafs Arnars Bjarnasonar. Þrátt fyrir sigurinn sitja þeir gulu enn á botni deildarinnar með lakari markatölu en Haukar sem einnig eru með þrjú stig.
Giles Mband Ondo skoraði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu úr vítaspyrnu eftir að Ingvar Kale braut á honum. Þeir héldu forystunni þó ekki lengi því fimm mínútum síðar jöfnuðu blikar með marki frá Arnóri Sveini Aðalsteinssyni. Rúnar Dór, markvörður Grindvíkinga, varði boltann í stöngina þaðan sem hann lenti í netinu. Á 32. mínútu voru Blikar aftur á ferðinni í vítateig Grindvíkinga þegar Alfreð Finnbogason kom þeim grænu yfir eftir mikla baráttu í teignum. Aðeins þrem mínútum síðar var Alfreð nálægt því að skora annað mark þegar hann klúðraði einn á móti Rúnari í markinu.
Grindvíkingar komu grimmir inn úr hálfleiknum og áttu tvö hættuleg færi á fyrstu mínútunum. Þeir gáfust ekki upp og héldu baráttu sinni áfram. Það skilaði sínu því að 75. mínútu jöfnuðu þeir metin, 2-2. Páll Guðmundsson lagði þá boltann í netið eftir sendingu frá Loic Ondo. Tíu mínútum síðar skoraði Giles Mbang Ondo sigurmark leiksins og annað mark sitt eftir klúður í vörn Blikanna. Lokatölur því 2-3 og Grindvíkingar komnir með sín fyrstu stig.
Víkurfréttamynd / Hilmar Bragi Bárðarson - Úr leik Grindavíkur og ÍBV á dögunum.