Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrsti leikur Keflvíkinga í Pepsi Max-deild kvenna í dag
Fyrirliði Keflvíkinga, Natasha Anasi, gefur lítið fyrir spá um fall liðsins og er spennt að hefja leik í Pepsi Max-deild kvenna. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 5. maí 2021 kl. 08:55

Fyrsti leikur Keflvíkinga í Pepsi Max-deild kvenna í dag

Keflavík tekur á móti Selfossi á Nettóvellinum í dag. Þetta verður fyrsti leikur Keflvíkinga í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu síðan 2019 en í fyrra vann liðið sér sæti í efstu deild að nýja eftir árs fjarveru. Leikurinn hefst klukkan 19:15.

Keflavík hefur haldið flestum leikmönnum frá síðasta tímabili og styrkt liðið með nokkrum nýjum. Víkurfréttir tóku tal af Natasha Anasi, fyrirliða Keflvíkinga, og spurðum hvernig henni lítist á að vera komin í deild hinna bestu á ný.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum mjög spenntar að byrja þessa deild, erum reynslunni ríkari eftir tímabilið 2019 og ætlum að sýna það og sanna að Keflavík á heima í deild þeirra bestu. Við, sem lið, erum auðvitað með ákveðin markmið innan liðsins en fyrst og fremst ætlum við að reyna spila skemmtilegan bolta og festa liðið í sessi í Pepsi Max-deildinni,“ segir Natasha sem hlakkar til fyrsta leiks.

Hún segir einnig að undirbúningstímabilið hafi verið gott og leikmenn búnir að vera duglegir frà því síðasta haust. „Auðvitað hefur Covid sett upp hindranir fyrir okkur, ekkert of margir alvöru leikir rétt fyrir mót en það sama er upp á teningnum hjá hinum liðunum.“

Liðið hefur staðið sig vel á undirbúningstímabilinu og sem dæmi vann Keflavík Selfoss 8:2 þegar liðin mættust í Lengjubikarnum. Auðvitað eru lið misryðguð í vorleikjunum en vefmiðillinn Fótbolti.net spáir þessum tveimur liðum misjöfnu gengi í sumar. Á meðan Selfyssingum er spáð fjórða sæti er Keflavík spáð falli. Við spurðum fyrirliðann hvað henni finnist um þá spá.

„Það er rosalega auðvelt að spá nýliðum falli þannig þetta hvorki kemur á óvart né er það eitthvað sem hefur àhrif à okkur sem lið. Við notum þetta frekar bara til að peppa okkur upp! Hópurinn er góður og við erum búin að fá flottar stelpur inn í liðið sem hafa smellpassað, bæði innan og utan vallar – þannig það er bara spenna fyrir því að geta loksins byrjað þetta mót!“

Keflavík, meistaraflokkur kvenna:

Markverðir: Tiffany Sornpao (nýr leikmaður frá Bandaríkjunum), Ester Júlía Gustavsdóttir, Irma Rún Blöndal og Sigrún Björk Sigurðardóttir.

Varnarmenn: Elín Helena Karlsdóttir (nýr leikmaður frá Augnabliki, er á láni frá Breiðabliki), Celine Rumpf, Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir, Kristrún Ýr Hólm, Eva Lind Daníelsdóttir (úr láni frá Grindavík) og Berta Svansdóttir.

Miðjumenn: Jóhanna Lind Stefánsdóttir (nýr leikmaður frá Fjarðabyggð/Hetti/Leikni), Abby Carchio (nýr leikmaður frá Gintras, Litháen), Natasha Anasi, Ísabell Jasmín Almarsdóttir og Kara Petra Aradóttir.

Sóknarmenn: Amelía Rún Fjeldsted, Aníta Lind Daníelsdóttir, Dröfn Einarsdóttir og Marín Rún Guðmundsdóttir.

Þjálfarateymi: Gunnar Magnús Jónsson, yfirþjálfari, Sævar Júlíusson, aðstoðarþjálfari, Helgi Rafn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari, Hjörtur Fjelsted, aðstoðarþjálfari, Soffía Klemenzdóttir, sjúkrateymi, og Þorgerður Jóhannsdóttir, sjúkrateymi.

Farnar frá síðasta tímabili:
Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir í Breiðablik (úr láni)
Claudia Cagnina í spænskt félag
Sveindís Jane Jónsdóttir í Wolfsburg (Þýskalandi) (var í láni hjá Breiðabliki)