Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrsti grannaslagurinn í áratug
Fimmtudagur 22. maí 2008 kl. 13:33

Fyrsti grannaslagurinn í áratug

Á föstudagskvöld verður magnaður nágrannaslagur í 2. deild karla í knattspyrnu þegar Reynir Sandgerði tekur á móti Víði Garði. Liðin hafa ekki mæst á móti í 10 ár og því marga farið að hungra eftir alvöru grannaslag. Liðin mætast á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði og hefjast leikar stundvíslega kl. 20:00.
 
Víðismenn höfðu sigur í 3. deild karla á síðustu leiktíð og unnu sér inni sæti í 2. deild en Reynismenn féllu úr 1. deild í fyrra. Þegar er fyrstu umferð í 2. deild lokið þar sem Reynir hafði góðan 2-3 útisigur gegn Hamri í Hveragerði en Víðir gerði 1-1 jafntefli gegn Hetti frá Egilsstöðum á Garðsvelli. Hvíti herinn, stuðningsmannasveit Reynis, ætlar að gera sér glaðan dag á morgun fyrir leik og munu liðsmenn sveitarinnar sem og aðrir hittast kl. 17:00 á Mamma Mía í Sandgerði. Þar verður boðið upp á andlitsmálun, verðlaun verða veitt fyrir best merkta stuðningsmanninn og þjálfari Reynis mun mæta á svæðið og kynna stuðningsmönnum byrjunarliðið fyrir leik. Lagt verður af stað frá Mamma Mía á Sparisjóðsvöllinn kl. 19.30 og verður farið í bílalest og ljóst að það á að spara kraftana fyrir sönginn í stað þess að labba á völlinn.
 
Áratugur er síðan liðin mættust síðast á Íslandsmóti en þá léku þau einmitt í 2. deild. Þetta var árið 1998 og það sumarið höfðu Víðismenn öruggan sigur í deildinni en Sandgerðingar féllu ásamt Fjölnismönnum. Liðin mættust í fyrsta leik mótsins árið 1998 í Sandgerði þar sem Víðismenn fóru með 3-1 sigur af hólmi. Kári Jónsson skoraði tvívegis í leiknum fyrir Víði og Hlynur Jóhannsson gerði þriðja markið. Hjá Reynismönnum var það Sigurður Valur Árnason sem skoraði fyrir Sandgerðinga. Reynismenn hugðu á hefndir þegar liðin mættust öðru sinni úti í Garði í 10. umferð en höfðu ekki erindi sem erfiði. Víðir vann leikinn 3-2 eftir að hafa leitt 2-0 í leikhléi. Goran Lukic, Kári Jónsson og Grétar Einarsson skoruðu fyrir Víði en Sigurður Valur Árnason skoraði tvívegis fyrir Reynismenn. Gaman er frá því að segja að Óskar Ingimundarson var þjálfari Víðis á þessum tíma en hann er bróðir Steinars Ingimundarsonar sem þjálfar nú Víði og kom þeim upp um deild síðasta sumar.
 
Þá er ráðgert að stuðningsmenn Víðis komi saman í Víðishúsinu laust fyrir kl. 19 en þar verður kátum fótboltakrökkum boðið upp á andlitsmálun og fleira skemmtilegt. Það er því von á fjölmenni á Sparisjóðsvöllin í Sandgerði annað kvöld enda ekki á hverri leiktíð sem þessir fornu fjendur mætast á grasinu.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024