Fyrsta þríþraut UMFN verður haldin aðra helgi
3N – Þríþrautardeild UMFN heldur sína fyrstu formlegu þríþraut laugardaginn 27. ágúst í Vatnaveröld í Reykjanesbæ. Keppt verður í sprettþraut og einnig fjölskylduþríþraut sem er liðakeppni. Þar munu fjölskyldumeðlimir skiptast á að synda, hjóla og hlaupa en ekki verður tekinn tími á þessum þátttakendum. „Þetta er fyrst og fremst gert til að virkja fólk og stuðla að því að fjölskyldan geri eitthvað saman, “ segir Steindór Gunnarsson hjá þríþrautardeild UMFN. Hann bætti því svo við að vegleg verðlaun væru í boði bæði fyrir þá sem komast á verðlaunapall og einnig útdráttarverðlaun.
Vegalengdir eru eftirfarandi:
Sprettþraut
- Sund 400 metrar
- Hjól 10 km
- Hlaup 2,5 km
Fjölskylduþríþraut
- Sund 200 metrar
- Hjól 5 km
- Hlaup 2 km
Sundið
Sundið fer fram í Vatnaveröld í Reykjanesbæ í 50 metra laug. Brautirnar eru 6 og verða mest 5 manns á braut. Ef þátttakendur eru fleiri en 30 er gert ráð fyrir að ræst verði í tveimur lotum. Eftir sundið er hlaupið niður tröppur og út úr sundlaugarhúsinu að sunnanverðu þar sem komið er út á skiptisvæðið við fótboltavöllinn í Keflavík.
Hjólið
Hjólaleiðin er 2,5 km hringur sem leiðir þátttakendur framhjá Vatnaveröld í hverjum hring. Farið er út frá skiptisvæði inn á Skólaveg, beygt til vinstri inn á Flugvallarveg og aftur vinstri inn á Hringbraut síðan vinstri inn á Skólaveg. Að lokum er beygt inn að Vatnaveröld (Sunnubraut) og farið inn á sama skiptisvæðið aftur.
Hjólaleiðin er nokkuð greið og ætti að vera hægt að ná góðum hraða á leiðinni. Ljúka þarf fjórum hringjum áður en snúið er inn á skiptisvæði.
Hlaupið
Í sprettþrautinni er hlaupið sömu leið og á hjólinu. Um er að ræða 2,5 km hring eins og lýst er hér að ofan. Endað er við Vatnaveröld. Í fjölskylduþríþrautinni verður hlaupið 2 km leið (sjá kort) og endað við marklínu við Vatnaveröld.
Nánari upplýsingar má nálgast hér á heimasíðu Njarðvíkur.
Eða á hlaup.com.