Fyrsta tapið fyrir Fram í efstu deild
Grindvíkingar töpuðu í gærkvöld fyrir Fram í Laugardalnum 3-1 í elleftu umferð Landssímadeildar karla í knattspyrnu. Þetta var í fyrsta sinn sem Grindvíkingar tapa fyrir Frömurum í efstu deild. Fimm sinnum hafa Grindvíkingar unnið og fjórum sinnum hefur viðureignum félaganna lokið með jafntefli. Grindvíkingar voru nokkuð sprækir í leiknum og virtust bæði lið eiga jafn góða möguleika á sigri. Það var hins vegar á 44. mínútu fyrri hálfleiks sem Framarar skoruðu sitt fyrsta mark í leiknum og þannig stóð í hálfleik.Bæði lið áttu mjög ákjósanleg færi í síðari hálfleik, en að þessu sinni voru það Framarar sem nýttu sín færi. Á 63. mínútu bættu heimamenn við öðru marki sínu, þegar Ronny Petersen skallaði í markið eftir hornspyrnu. Aðeins þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma náðu Grindvíkingar að rétta aðeins hlut sinn þegar Sverrir Þór Sverrisson gaf boltann inn í teig þar sem Sinisha Kekic skoraði með skoti af stuttu færi. Sóknarleikur Grindvíkinga þyngdist mikið síðustu mínútur leiksins og virtust þeir jafnvel geta jafnað leikinn, en þess í stað voru það Framarar sem bættu við sínu þriðja marki á 89. mínútu og gerðu þar með út um vonir Grindvíkinga í leiknum.Grindvíkingar eru enn í öðru sæti Landssímadeildarinnar með 19 stig eftir ellefu umferðir, þremur stigum frá Fylki sem situr í toppsæti deildarinnar.