Fyrsta tap Njarðvíkur gegn lærisveinum Teits
Bikarmeistarar Stjörnunnar færðu Njarðvíkingum sinn fyrsta deildarósigur í Iceland Express deild karla í gærkvöldi. Lokatölur í Ásgarði voru 82-75 Stjörnunni í vil þar sem félagarnir Fannar Helgason og Justin Shouse gerðu báðir 21 stig fyrir heimamenn. Sundurleitur her Njarðvíkinga virkaði eins og villuráfandi sauðir á lokasprettinum þar sem hver leikmaðurinn á fætur öðrum reyndi sólóverkefni sem Stjörnuvörnin kvaddi í kút.
Ef Njarðvíkingar voru óviðbúnir einhverju í kvöld þá var það að Fannar Helgason skyldi láta rigna yfir þá þremur þristum í upphafi leiks. Stjörnumenn leiddu 25-19 eftir upphafsleikhlutann.
Jovan Zdravevski reyndist Njarðvíkingum erfiður og var ógnandi og Fannar splæsti í fjórða þristinn og breytti stöðunni í 31-23 Stjörnunni í vil. Hér reyndi Magnús Þór Gunnarsson að berja Njarðvíkinga áfram og minnkaði hann muninn í 32-30 er hann skoraði og fékk villu að auki. Varnarleikur Njarðvíkinga var óstöðugur og Páll Kristinsson fékk snemma sína þriðju villu í öðrum leikhluta og varð að hafa sig hægan.
Jóhann Árni Ólafsson var seigur í fyrri hálfleik í Njarðvíkurliðinu og jafnaði metin í jöfnum leik, 41-41 með þriggja stiga körfu en Stjörnumenn tóku á rás undir lok fyrri hálfleiks þar sem Jovan Zdravevski setti niður þrist og þar við sat og Stjarnan leiddi 50-45 í hálfleik.
Jóhann Árni og Friðrik Stefánsson voru fyrirferðamiklir í Njarðvíkurliðinu í þriðja leikhluta og nokkuð hitnaði í hamsi hjá báðum liðum og oft mátti litlu muna til að syði uppúr. Njarðvíkingar unnu þriðja leikhluta 16-23 og leiddu 66-67 fyrir fjórða leikhluta.
Eftir mikla eyðimerkurgöngu hjá Njarðvík þar sem m.a. sáust skot hjá miklum skotmönnum sem ekki rötuðu á hringinn þá náði Guðmundur Jónsson að bora niður þrist fyrir gestina og minnka muninn í 78-75. Hér voru 2.45 mín. til leiksloka og eftir þessa körfu frá Guðmundi fór allt í frost í Njarðvíkurliðinu. Þeir skoruðu ekki stig það sem eftir lifði leiks! Slæmar ákvarðanatökur og sólóverkefni leikmanna gegn einbeittri vörn Stjörnunnar færði Njarðvíkingum sinn fyrsta ósigur í deildinni.
Lokatölur því 82-75 og bikarmeistararnir því einir um að hafa lagt topplið Njarðvíkur og Keflavíkur á leiktíðinni.
Justin Shouse og Fannar Helgason gerðu báðir 21 stig fyrir Stjörnuna í gærkvöldi.
Jóhann Árni Ólafsson gerði 22 stig í Njarðvíkurliðinu og var með 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Næstir Jóhanni komu þrír Njarðvíkingar með 12 stig en það voru þeir Magnús Þór Gunnarsson, Guðmundur Jónsson og Friðrik Stefánsson sem einnig var með 14 fráköst. Sjá myndasyrpu á og ítarlegri umfjöllun á karfan.is
Það vantar svo ekki stórleikina í næstu umferð þegar Njarðvíkingar taka á móti Keflavík í Suðurnesjatoppslag.
Mynd/karfa.is: Teitur hafði betur gegn Sigga Ingimundar og félögum í Njarðvík.