Fyrsta tap Keflvíkinga staðreynd
Suðurnesjaliðin töpuðu öll
Keflvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik í Domino's deild karla í körfubolta eftir spennandi rimmu gegn Stólunum á útivelli. Lokatölur 97-91 fyrir Tindastól. Earl Brown skoraði 27 stig fyrir Keflvíkinga og Valur Orri var með 18 stig og 7 stoðsendingar. Þrátt fyrir tapið eru Keflvíkingar enn einir á toppnum.
Grindvíkingar steinlágu á heimavelli gegn sterkum KR-ingum, 74-94 lokatölur í Mustad höllinni. Leikurinn var jafn framan af en KR var mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik og Grindvíkingar áttu í vandræðum með gríðarlega öflugan varnarleik Vesturbæinga.
Eric Wise skoraði 21 stig fyrir heimamenn en þeir Jón Axel (18) og Jóhann Árni (14) voru næst atkvæðamestir í liði Grindvíkinga.
Í Garðabæ töpuðu Njarðvíkingar 80-70 gegn Stjörnunni. Haukur Helgi Pálsson var með 20 stig og Logi Gunnars 19 fyrir Njarðvík. Njarðvíkingar voru í villuvandræðum undir lokin og þurftu þrír byrjunarliðsmenn þeirra að yfirgefa völlinn með fimm villur, þeir Haukur, Maciek og Simmons. Hinir tveir í byrjunarliðinu voru svo með fjórar villur.