Fyrsta tap Keflvíkinga staðreynd
Keflvíkingar tóku á móti Eyjamönnum á Nettóvellinum í 5. umferð Pepsi deildar karla nú í kvöld. Leikurinn byrjaði heldur betur fjörlega en Tryggvi Guðmundsson skoraði strax á fyrstu mínútu og Keflvíkingar slegnir útaf laginu. Heldur dökknaði útlitið fyrir Keflvíkinga þegar Andri Ólafsson kom Eyjamönum í 0-2 þagar aðeins 10 mínútur voru liðnar af leiknum. Segja má að Keflvíkingar hafi aldrei komist almennilega í gang eftir upphafsmínúturnar og staðan 0-2 í hálfleik.
Keflvíkingar virtust örlítið sprækari í upphafi síðari hálfleiks en ÍBV vörðust vel og Keflvíkingar sköpuðu ekki mikið af færum. Umdeilt atvik átti sér stað þegar rúmur klukkutími var búinn af leiknum. Þá virtist sem skot Keflvíkinga sem hafnaði í báðum stöngunum hafi farið inn fyrir línuna en aðstoðardómarinn var ekki í góðri aðstöðu til að sjá atvikið. Lokatölur því 0-2 og fyrsta tap Keflvíkinga á leiktíðinni staðreynd.
Tryggvi Guðmundsson var fluttur á sjúkrahús í hálfleik eftir slæmt höfuðhögg
VF Myndir/Páll Orri Pálsson, Eyþór Sæmundsson og Páll Ketilsson: Andri Steinn Birgisson í baráttu við markvörð ÍBV efst og svo er mynd af atvikinu umdeilda