Fyrsta tap Grindvíkinga
Grindvíkingar töpuðu fyrir nýliðum Fylkis 2-0 í Árbænum í kvöld, en fyrir leikinn hafði hvorugt liðið tapað leik í Landssímadeildinni í sumar. Fylkismenn fóru betur af stað í leiknum gegn Grindvíkingum í kvöld, en á 11. mínútu skoraði Helgi V. Daníelsson fyrra mark liðsins eftir hornspyrnu. Þrettán mínútum síðar fengu Fylkismenn vítaspyrnu. Sverrir Sverrisson tók spyrnuna sem Albert Sævarsson, markvörður Grindvíkinga varði glæsilega. Það var þó skammgóður vermir, þar sem aðeins mínútu síðar skoruðu Fylkismenn sitt síðara mark í leiknum, en þar var á ferðinni Kristinn Tómasson, sem skoraði beint úr aukaspyrnu með föstu skoti efst í hornið. Þrátt fyrir að Grindvíkingar hafi tapað leiknum þá áttu þeir fjölda færa, en í engu þeirra rataði boltinn rétta leið í mark andstæðinganna. Eftir áttundu umferðina sitja Grindvíkingar í 4. sæti með 13 stig.