Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrsta stóra boxkeppni ársins
Mánudagur 15. mars 2004 kl. 16:15

Fyrsta stóra boxkeppni ársins

Næstkomandi laugardagskvöld, 20. mars fer fram boxkeppni í Ljónagryfjunni, Njarðvík.  Þetta verður í fyrsta sinn í tæplega 50 ár sem innlendir boxklúbbar mætast í keppni, en það er Hnefaleikafélag Reykjaness(HFR) sem tekur á móti Hnefaleikafélagi Reykjavíkur (HR). 

Alls verða fimm bardagar háðir. Lagt verður kapp á að gera keppnina að skemmtun fyrir alla fjölskylduna og verður boðið upp á skemmtiatriði af ýmsum toga á milli bardaga, m.a. mun Idol stjarnan Kalli Bjarni flytja nokkur lög, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Hnefaleikafélagi Reykjaness.

Hápunktur keppninnar verður án nokkurs vafa viðureign í þungavigt, þar sem Grindvíkingurinn Tómas Guðmundsson (HFR) og Ísfirðingurinn Lárus Mikael Knudsen, sem keppir fyrir hönd HR, mætast.  Þetta verður í annað sinn sem þessir harðjaxlar mætast og hefur Tómas harma að hefna frammi fyrir sínu heimafólki, því Lárus vann fyrri bardagann. 

Aðrir bardagar sem fram fara á keppninni eru:
Vikar K. Sigurjónsson (HFR) VS. Þórir Fannar Þórisson(HR)
Heiðar Sverrisson (HFR) VS.  Gunnar Óli Guðjónsson (HR)
Örn Jónasson (HFR) VS. Birkir Guðbjartsson (HR)
Árni Páll Jónsson (HFR) VS. Einar Sverrisson (HR)


Í undanförnum keppnum sem haldnar hafa verið í Reykjanesbæ hefur ávalt myndast sérstök stemmning.  Suðurnesin hafa verið höfuðvígi íþróttarinnar frá því að hún var lögleidd á ný árið 2002, og er gjarnan húsfyllir á þeim keppnum sem þar fara fram, segir í tilkynningu.

Húsið opnar kl. 19:00 og mun keppnin hefjast kl. 20:00.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024