Fyrrum þjálfari Keflvíkinga látinn
Frank Upton, sem þjálfaði lið Keflavíkur í knattspyrnunni fyrir tæpum aldarfjórðungi og lék lengi með enskum liðum auk þess að þjálfa um langt árabil, lést í Englandi í gær, 76 ára að aldri. Frá þessu er greint á mbl.is
Upton tók við liði Keflavíkur í ágústbyrjun 1987 en þá var það í mikilli fallhættu þegar sex umferðum var ólokið. Upton tókst að þétta vörn liðsins rækilega, svo vel að Keflvíkingar fengu ekki á sig mark í síðustu fimm umferðunum og tryggðu sér áframhaldandi sæti af öryggi.
Upton var síðan áfram við stjórnvölinn í Keflavík árið 1988. Þá komst liðið aldrei á flug og gerði ekki meira en að tryggja sig áfram í deildinni, endaði í 7. sæti af 10 liðum en var þó níu stigum frá fallsætunum.
Sjálfur var Upton öflugur varnarmaður og lék sem atvinnumaður í ensku deildakeppninni í 15 ár, frá 1953 til 1968. Lengst með Derby County, í átta ár, en einnig með m.a. Chelsea og Notts County.
Upton var fyrst knattspyrnustjóri Workington, sem þá var í deildakeppninni, en síðan þjálfari hjá Northampton, Aston Villa og Chelsea. Upton stýrði danska liðinu Randers í tvö ár og þjálfaði hjá Dundee í Skotlandi, Al Arabi í Kúveit og Wolves, og var síðan aðstoðarstjóri Coventry áður en hann kom til liðs við Keflvíkinga 1987.
Eftir Íslandsdvölina þjálfaði Upton í Malasíu, kom aftur til Englands og stýrði Burton Albion, og fékkst eftir það við þjálfun hjá nokkrum liðum í viðbót, m.a. Leicester City.