Fyrrum KR-ingur til Njarðvíkur

Körfuknattleiksdeild UMFN hefur samið við Cameron Echols um að leika með karlaliði félagsins á komandi vetri.  Echols er þrítugur, 203 cm og 105 kg og leikur í stöðu miðherja.
Nafnið gæti verið kunnuglegt fyrir einhverja áhugamenn um körfuknattleik því Cameron lék með KR-ingum keppnistímabilið 2004-2005 og átti þar góða leiktíð.  Hann skoraði 28,2 stig á leik og reif niður 13,0 fráköst í 21 leik með þeim röndóttu það ár.  Hann útskrifaðist úr Ball State háskólanum árið 2004.
Síðustu árin hefur hann leikið í Portúgal og á Spáni að mestu en þetta er reynslumikill leikmaður sem gefur ungu Njarðvíkurliði vonandi aukinn styrk í teignum, en hann leysir Chris Sprinker af hólmi.  Sprinker fór héðan til Rúmeníu, þar sem hann mun leika í vetur.
Fyrsta verkefni Echols er æfingaleikur á sunnudag gegn Snæfell í Ljónagryfjunni en þá verður tvíhöfði milli þessara félaga.  Stelpurnar hefja leik klukkan 13:00 og strákarnir hefja svo leik 15:00 og er frítt á þessa leiki sem eru lokaupphitun UMFN liðanna fyrir Iceland Express deildirnar en stelpurnar hefja svo leik miðvikudaginn 12. október  á Ásvöllum er þær mæta Haukum og strákarnir hefja leik föstudaginn 14. október í Vodafonehöllinni hvar þeir mæta Valsmönnum.  Strákarnir leika svo fyrsta heimaleikinn 17. október gegn Haukum.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				