Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Fyrir æfingu horfum við á klippur frá æfingu gærdagsins“
Mynd úr einkasafni
Sunnudagur 27. nóvember 2016 kl. 06:00

„Fyrir æfingu horfum við á klippur frá æfingu gærdagsins“

-Sara Rún Hinriksdóttir í viðtali um lífið í háskólakörfuboltanum í Buffalo

Keflvíkingurinn Sara Rún Hinriksdóttir spilar körfubolta með Canisius háskólanum í Buffalo í New York fylki en þar er hún á sínu öðru ári. Sara spilar bæði sem bakvörður og framherji, en hún er vongóð um að hlutverk hennar í liðinu stækki í ár frá því í fyrra og telur liðið geta náð mjög langt í vetur.

Hvernig leggst tímabilið í þig og hvaða væntingar hefurðu til þess?
Tímabilið leggst rosalega vel í mig. Við stelpurnar erum þvílíkt búnar að æfa vel í allt sumar og yfir allt undirbúningstímabilið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Er liðið mikið breytt frá því í fyrra? Hvernig breytist hlutverk þitt í liðinu?
Já ég myndi segja það, við misstum þrjá mjög góða leikmenn út og fengum þrjá rosalega góða nýliða inn. Mín tilfinning er sú að hlutverkið mitt muni stækka á þessu tímabili, en svo veit maður aldrei! Mér finnst rosalega mikill munur persónulega að vera að byrja annað árið heldur en það fyrsta, núna veit maður hvað maður er að fara út í og er einhvern veginn aðeins rólegri með allt saman.

Hve langt telurðu ykkur geta náð í ár?
Ég tel liðið mitt geta náð mjög langt í ár. Eins og ég sagði þá erum við búnar að vera að æfa stíft í allt sumar og vonandi á það eftir að skila sér. Svo erum við líka allar staðráðnar í því að gera betur en í fyrra.

Hvernig er liðsandinn?
Liðsandann er rosa góður, við erum ein stór heild sem mér finnst skipta rosalega miklu máli.

Ertu með persónulegt markmið fyrir þetta tímabil?
Já, að verða betri leikmaður á hverri æfingu og í hverjum leik og að gera allt sem ég get svo að liðið verði betra.

Hvernig var tilfinningin í fyrsta leik tímabilsins?
Tilfinningin var rosalega góð, það er spenningur í að gera betri hluti en í fyrra.
 
Geturðu lýst venjulegum degi hjá þér úti?
Ég vakna snemma og fer í skólann. Eftir skólann fer ég að lyfta, svo fer ég oftast og fæ mér eitthvað að borða og fer svo á bókasafnið, því það er alltaf svo mikið heimanám.

Fyrir æfingu horfum við á klippur frá æfingu gærdagsins, en þá er þjálfarinn búinn að taka saman í myndband hvað við þurfum að laga. Mér finnst það mjög sniðugt, því það er svo gott að sjá mistökin, en ekki bara tala um þau.

Svo er það æfingin sjálf. Þetta árið hafa æfingarnar verið rosalega langar, alveg upp í þrjár klukkustundir. Og það er ekki ein mínúta sem fer til spillis. Hver einasta sekúnda er skipulögð. Eftir æfingu er annar myndbandsfundur þar sem farið er yfir liðið sem við munum spila gegn næst.

Við skoðum hvernig vörn og sókn þær spila og hvernig við ætlum að spila á móti þeim. Eftir það þá förum við allar á matsölustað sem er hérna á skólalóðinni og borðum kvöldmat saman. Eftir kvöldmat fer ég stundum á bókasafnið, en það fer eftir því hvort ég hafi náð að læra allt fyrr um daginn eða ekki.

 
Myndir úr einkasafni