Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fylltist stolti að keppa fyrir Íslands hönd
Mánudagur 24. október 2016 kl. 09:12

Fylltist stolti að keppa fyrir Íslands hönd

-„Eftir keppnina áttaði ég mig svo á því að það að keppa á Evrópumótinu hafi verið það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir Kolbrún Júlía í viðtali við Víkurfréttir

Fimleikakonan Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman úr Keflavík var í hópi landsliðs Íslands í blönduðum flokki fullorðinna sem keppti á Evrópumótinu í hópfimleikum sem fram fór í Maribor í Slóveníu í síðustu viku. Liðið stóð sig frábærlega og hreppti bronsið, en Ísland hefur aldrei áður komist á verðlaunapall í þessum flokki.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

3. sætið staðreynd. Frábær árangur. En hvað fannst liðinu um að hafa endað í 3. sæti?

Liðið var himinlifandi yfir því að hafa endað í 3. sæti. Í undanúrslitunum enduðum við í 5. sæti, sem við vorum ekki alveg nógu sátt með vegna þess að við vissum að við áttum nóg inni. Í úrslitunum sjálfum gekk hins vegar allt upp hjá okkur og við náðum að hækka okkur upp um tvö sæti á milli keppnisdaga, sem var frábær árangur sem allir voru mjög ánægðir með. Það sem gerði þetta enn skemmtilegra var það að við erum fyrsta liðið frá Íslandi sem kemst á pall í blönduðum flokki fullorðinna.

 

Hvernig var tilfinningin að keppa á Evrópumótinu? Geturðu lýst henni?

Tilfinningin sem fylgdi því að keppa á Evrópumótinu var æðisleg. Evrópumótið í ár var mitt fyrsta stórmót þannig að ég vissi ekki við hverju ég átti að búast en ég var búin að heyra það frá mörgum að þetta væri mjög skemmtilegt. Þegar ég hljóp inn á gólfið ásamt liðinu mínu á fyrsta áhaldið okkar fékk ég staðfestingu á því sem ég hafði heyrt. Ég fylltist þvílíku stolti að vera að fara að keppa fyrir Íslands hönd og áttaði mig á því hvað keppnin myndi verða ótrúlega skemmtileg. Eftir keppnina áttaði ég mig svo á því að það að keppa á Evrópumótinu hafi verið það skemmtilegasta sem ég hef gert. Það að ná öllum sínum markmiðum eftir þrotlausar æfingar er ótrúlega gaman og gefandi og tilfinningin er í rauninni ólýsanleg.

 

Þú veiktist og þurftir að draga þig úr hópnum fyrir úrslitadaginn. Það hlýtur að hafa verið svekkjandi?

Já, það var magapest að ganga á milli liða sem ég var svo óheppin að grípa nóttina fyrir úrslitin. Í kjölfar þess gat ég ekki keppt í úrslitunum sem var ótrúlega svekkjandi og leiðinlegt vegna þess að mig langaði að hjálpa liðinu við þá bætingu sem við ætluðum að ná frá fyrri deginum. Ég var samt ekki lengi að snúa hugarfarinu við með hjálp liðsfélaganna og þjálfaranna og ákvað að veita liðinu minn stuðning af stuðningsmannapöllunum og hvetja það áfram eins og ég gat. Einnig vorum við með mjög sterkt lið og ég vissi að þau myndu standa sig vel sama hvað, sem þau gerðu síðan.

 

Ert þú með eitthvað persónulegt markmið fyrir veturinn í fimleikunum?

Mín markmið fyrir veturinn í fimleikunum eru einföld og skýr. Fyrir það fyrsta ætla ég að hafa félagsskipti fljótlega og hlakka ég mikið til þess. Ég ætla að nota tímann núna fram að mótatímabilinu í að bæta við mig nýjum og erfiðari stökkum en aðal markmiðið samt sem áður er að hafa gaman og njóta þess að gera það sem ég elska á meðan ég get.