Futsal-keppnin: Keflvíkingar töpuðu stórt í öðrum leik
Keflvíkingar töpuðu stórt í öðrum leik sínum í evrópukeppninni í FUTSAL í gær. Lokatölur urðu 5-17 fyrir KBU France sem er með alveg hreint klassalið í þessum innanhússbolta. Keflavík komst þó í 2-0 með mörkum frá Magnúsi Sverrir og Haraldi Frey. En þá tóku Frakkarnir öll völd á leiknum og röðuðu inn mörkum. Staðan 2-10 í hálfleik og útlitið vægast sagt slæmt.
Seinni hálfleikur var betri hjá Keflavík en sá fyrri, en Frakkarnir léku mjög vel enda atvinnumenn í þessari grein og spila grimmt allt árið. Keflavík skoraði þrjú mörk í þeim seinni og þau gerðu þeir Arnór Ingvi, Viktor Smári og Gummi Steinars.
Í hinum leiknum sigruðu Eindhoven lið Vimmerby IF 12-1.
Lokaleikirnir fara fram á þriðjudag. Klukkan þrjú mætast KBU France og Vimmerby IF. Í seinni leiknum kl 17:30 mætast Eindhoven og Keflavík.
Myndir/Jón Örvar.