Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Fullur stuðningur við þjálfara Njarðvíkur
  • Fullur stuðningur við þjálfara Njarðvíkur
    Arngrímur Guðmundsson.
Sunnudagur 6. júlí 2014 kl. 12:00

Fullur stuðningur við þjálfara Njarðvíkur

- Ætlum ekki að spila í 3. deild segir formaður knattspyrnudeildar

Njarðvíkingar hafa aðeins nælt sér í fjögur stig það sem af er keppnistímabilinu í 2. deildinni í fótbolta. Liðið er á botni deildarinnar eftir níu leiki og útlitið er óneitanlega orðið nokkuð svart. Liðið er skipað ungum leikmönnum og óreyndum þjálfurum. Arngrímur Guðmundsson formaður knattspyrnudeildar Njarðvíkur segir að fullur stuðningur sé við þjálfara liðsins, Guðmund Steinarsson.

„Það er ekkert í myndinni hjá okkur að fara í þjálfaraskipti. Við erum með ungt lið og erum að vinna í því að byggja það upp. Það tekur tíma en við vissum að þetta yrði erfitt þegar við lögðum af stað í vor. Þjálfararnir Guðmundur og aðstoðarþjálfarinn Ómar Jóhannsson eru að stíga sín fyrstu skref í þjálfun.“
Arngrímur telur að reynsluleysi þjálfaranna spili ekki inn í slæmt gengi. „Ég hef fulla trú á mínum þjálfurum. Þeir hafa verið að vinna mjög gott starf hjá okkur.“

Njarðvíkingar eru í samvinnu við Keflvíkinga en ungir leikmenn úrvalsdeildarliðsins leika margir hverjir með Njarðvíkingunum „Stór hluti af liðinu eru leikmenn sem enn leika með 2. flokki og það er mikið stökk fyrir þá að fara upp í meistaraflokk, þó að við séum að tala um 2. deildina. Þetta eru mjög efnilegir strákar sem eiga framtíðina fyrir sér. Við ætlum okkur ekkert að spila í 3. deild, það er ekkert á borðinu. Við gerum það sem við getum til þess að tryggja okkar sæti í deildinni,“ segir Arngrímur.

Hefur verið rætt um að fá reynslumeiri menn til liðsins?
„Alltaf þegar illa gengur þá fara menn að hugsa út fyrir boxið. Það er þó ekkert sem búið er að taka ákvörðun um. Það má heldur ekki gleyma því að horfa á heildarmyndina. Við erum með þá sýn að í framtíðinni þá verði Njarðvíkurliðið byggt upp á strákum héðan af svæðinu, menn hætti þessum hlaupum út um borg og bý að sækja leikmenn sem kosta félögin stórfé. Við komum til með að skoða það í félagsskiptaglugganum hvort við munum styrkja hópinn, en það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það.

En hvar eru reynsluboltarnir í Njarðvík?
„Það varð mikið kynslóðabil á tímabili. Það komu upp fámennir yngri flokkar hjá okkur og aðrir höfðu spilað sinn tíma fyrir klúbbinn. Það verður bara að sýna þessu uppbyggingarstarfi þolinmæli. Hér á svæðinu er takmarkað aðgengi að fjármagni til rekstursins og því verðum  við að reyna að gera það besta úr því sem við höfum,“ sagði formaðurinn að lokum.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024