Fullt hús hjá Njarðvíkingum
Njarðvíkingar luku keppni í Reykjanesmótinu í gær og vann liðið allar viðureignir sínar. Reykjanesmeistararnir lögðu Grindvíkinga í Röstinni í gærkvöldi, 78-79, þar sem Jeb Ivey átti enn einn stórleikinn.
Grindvíkingar höfðu yfir í hálfleik 45-43 og í seinni hálfleik virtist sem Grindvíkingar ætluðu að stinga Njarðvíkinga af þegar þeir gerðu 11 stig í röð. Staðan að loknum 3. leikhluta var 65-59 þar sem Jeb Ivey og Kristján Sigurðsson gerðu 9 stig fyrir Njarðvíkinga á skömmum tíma.
Ragnar Ragnarsson, sem á nýjan leik klæðist Njarðvíkurbúning eftir að hafa gengið til liðs við Ljónin á síðustu leiktíð, kom sterkur inn í 4. leikhluta og jafnaði metin í 70-70 þegar 4 mínútur voru til leiksloka. Þegar 40 sekúndur voru til leiksloka höfðu Grindvíkingar yfir með einu stigi, heimamenn fóru í sókn en misfórst að skora og þá var komið að Jeb Ivey. Hann gerði sigurkörfuna þegar 4 sekúndur voru til leiksloka með stökkskoti frá vítalínu. Helgi Jónas Guðfinnsson fékk þá boltann og náði skoti fyrir utan þriggja stiga línuna en skotið rataði ekki rétta leið og eins stigs sigur Njarðvíkinga í höfn.
Jeb Ivey gerði 30 stig fyrir Njarðvík í leiknum en Brenton Birmingham kom honum næstur með 21 stig. Í liði Grindavíkur var Páll Axel atkvæðamestur með 28 stig og gerði Damon Bailey 24 stig.
Tölfræði leiksins
Njarðvíkingar halda nú til Danmerkur þar sem þeir leika í Bakken Bears Knock out Cup en þeir sigruðu einmitt á þessu móti í fyrra.
Heimild: www.umfn.is/karfan
VF-mynd/ frá viðureign liðanna á síðustu leiktíð