Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fullt á hverjum leik í Kína
Fimmtudagur 1. nóvember 2007 kl. 13:18

Fullt á hverjum leik í Kína

Félagarnir og handboltadómaraparið til 25 ára Gísli Hlynur Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson dæmdu á dögunum á Special Olympics World summer games sem fram fóru í Sjang-hai í Kína. Gísli og Hafsteinn voru eina dómaraparið í handboltakeppni leikanna sem komu frá Evrópu. Það var hin fornfræga Kennedy-fjölskylda í Bandaríkjunum sem stofnaði Special Olympics og árið 2003 dæmdu þeir Gísli og Hafsteinn á leikunum á Írlandi en það voru fyrstu Special Olympics World games sem haldnir voru utan Bandaríkjanna. Þeir Gísli og Hafsteinn kváðust strax eftir þá leika hafa verið staðráðnir í því að dæma að nýju á leikunum og það gekk eftir.

 

„Beiðni barst frá mótshöldurum að utan til allra sérsambanda um að athuga hvort einhverjir alþjóðadómarar væru tilbúnir til að dæma á þessum leikum. Við svöruðum beiðninni um að fá að  dæma á mótinu og fyrir ári síðan byrjaði boltinn að rúlla hjá okkur. Þegar við dæmdum á Írlandi vissum við að þetta yrði í Kína í ár og vorum því strax staðráðnir í því að dæma aftur á leikunum,“ sögðu þeir félagar í samtali við Víkurfréttir en Gísli og Hafsteinn lögðu á sig langt og strangt ferðalag til þess að geta tekið þátt í þessum risavöxnu leikum. Alls voru í kringum 7500 keppendur á leikunum, 40.000 sjálfboðaliðar og 3500 dómarar/starfsmenn í hinum ýmsu íþróttagreinum.

 

Lögðu línurnar í Kína

Þegar út var komið var fundað stíft áður en keppni hófst og vegna þeirrar reynslu sem Gísli og Hafsteinn höfðu fengið á Írlandi voru þeir beðnir um að halda erindi um handboltadómgæslu á Special Olympics. „Við vorum fengnir til þess að leiðbeina heimamönnum um dómgæsluna og var almenn ánægja með það. Síðan tók við dómgæslan sjálf. Keppt var í forkeppni og svo raðað í riðla eftir getu,“ sagði Gísli.

Dómgæslan var nokkuð öðruvísi en þeir félagar eiga að venjast hér heima í baráttunni í úrvalsdeildunum en fjöldinn var þó nokkuð meiri. „Það er tvennt ólíkt að dæma á svona leikum og hér heima. Þarna voru mörg góð lið en önnur með takmarkaða getu. Áður en við dæmdum fyrsta leik þá skoðuðum við hallirnar og höfðum það á orði að það gæti nú orðið þannig að í þessum 2000 manna höllum yrði bara einn og einn áhorfandi á stangli,” sagði Hafsteinn, en strax á fyrsta leikdegi var keppnishöllin orðin yfirfull.

„Sjang-hai er 20 milljón manna borg og mótið var gríðarlega vel skipulagt. Á hverjum leikdegi voru bara hópferðir úr nálægum grunnskólum og hallirnar fylltust af áhorfendum sem hvöttu liðin til dáða og stemmningin var alveg frábær. Þá voru um 60-70 öryggisverðir á vappi í hverjum einasta leik.“

 

 

Allir eins

Gísli og Hafsteinn voru umkringdir aðstoðarmönnum allan tímann og var sérstaklega passað upp á að þeir myndu ekki villast í mannmergðinni. Strákarnir gátu þó leyft sér endrum og sinnum að gera sér glaðan dag og lentu t.d. í vandræðum í einni skóbúðinni.

„Hafsteinn fór að versla sér skó og þurfti að fara á kassa til þess að greiða fyrir parið. Á meðan skoðaði ég skópar og hugðist kaupa mér álíka par. Þá spurði þjónustustúlkan mig hvort ég ætlaði að fá tvenn skópör. Ég áttaði mig ekki á þessu í fyrstu en svo kom það í ljós að hún tók feil á mér og Hafsteini. Henni fannst við svo líkir,” sagði Gísli og skellti upp úr og bætti því við að það væri þá ekki einstefna í þessum málum. Okkur finnst Kínverjar vera allir eins og þeir fyndust við líka öll vera alveg eins.

 

Klippti bindið af hótelstjóranum

Í ferðinni sáu þeir félagar margt og fóru í ótal skoðunarferðir og þegar leikunum lauk var vitaskuld blásið til veglegrar veislu. Jafnan er Gísli hrókur alls fagnaðar á mannamótum en hann á það til að grípa til töfrabragða og lét hann á þau reyna á lokakvöldinu. Dómurum mótsins, yfirmönnum dómaramála og fleirum var boðið í hátíðarkvöldverð.

„Við áttum að sporðrenna krabba sem kom í heilu lagi og það ku vera mikið lostæti í Kína. Ég tók hann í sundur og smakkaði aðeins á honum en þetta var ekki alveg nógu gott,” sagði Gísli sem fór á kostum þetta kvöldið. „Ég varð auðvitað að vera með smá „show” og tók töfrabrögðin með mér út og m.a. klippti bindið af hótelstjóranum. Fólkið í salnum tók svo andköf þegar ég gat ekki sett bindið aftur saman og sagði þeim að þetta hafi aldrei heppnast en væri þó alltaf að æfa mig.

Hótelstjórinn lék þetta vel með mér og varð voðalega reiður. Auðvita var ég búinn að skipta um bindi,“ sagði Gísli og sagði fólki mikið létt þegar hann og hótelstjórinn upplýstu að engin kergja væri millum þeirra, bara töfrar.

 

Vinnunni fórnað

Engin eru launin fyrir það að dæma á Special Olympics. Strákarnir þurftu að nota hluta úr sumarfríi sínu til þess að komast til Kína en 10 vinnudagar fóru í ferðalagið. Sparisjóðurinn í Keflavík styrkti þá félaga til fararinnar og einnig aðstoðaði Íþróttasamband fatlaðra við förina. Þeir voru þó í fríu húsnæði og uppihaldi í Kína með aðstoðarmenn allt um kring. Gísli og Hafsteinn segja svona leika mikla upplifun og eru því staðráðnir í því að fara aftur. „Þetta var löng ferð og skemmtileg í alla staði og erum við strax farnir að líta til Grikklands 2011. Þó væri það draumur að komast á Special

Olympics í Brasilíu 2015, þá verð ég fimmtugur,“ sagði Gísli.

 

Gísli og Hafsteinn eru eitthvert reyndasta handboltadómarapar landsins og hafa dæmt saman í 25 ár. Strákarnir eru hvergi nærri hættir og hafa þegar dæmt fjölmarga leiki í handboltanum það sem af er leiktíðinni. Miðað við frammistöðu þeirra félaga í Kína er ekki ósennilegt að þeir verði kvaddir til Grikklands og jafnvel Brasilíu og fengnir til þess að miðla úr viskubrunnum sínum.

 

[email protected]

 

Myndir: Úr einkasafni

Mynd 1: Félagarnir mættir í gallann og tilbúnir í slaginn í Kína.

Mynd 2: Vaskur hópur Suðurnesjamanna í Kína.

Mynd 3: Gísli til vinstri og Hafsteinn til hægri ásamt Dorrit forsetafrú Íslands.

Mynd 4: Það sést hverjir drekka Kristal

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024