Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

FSu sigraði í háspennuleik í Njarðvík
Sunnudagur 11. janúar 2009 kl. 16:52

FSu sigraði í háspennuleik í Njarðvík

 
FSu sigraði Njarðvík öðru sinni á þessari leiktíð með minnsta mun eða 82-83. Lið FSu virstist vera með sigurinn vísan þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum en baráttuglatt lið Njarðvíkinga náði að jafna leikinn en það var Vésteinn Sveinsson sem kláraði dæmið á vítalínunni fyrir gestina. Leikurinn fór fram sl. föstudagskvöld. Meðfylgjandi umfjöllun um leikinn er fengin með góðfúslegu leyfi af vefnum karfan.is.
 
Njarðvíkingar komu töluvert grimmari til leiks í kvöld og vildu greinilega hefna fyrir 25 stiga tapið í fyrri leik liðanna. Með Loga Gunnarsson í fararbroddi náðu Njarðvíkingar 10 stiga forskoti eftir fyrsta fjórðung. Logi var áfram heitur og setti niður 21 stig í fyrri hálfleik og leiddu heimamenn með 10 stigum í hálfleik 45-35.
 
Það var svo allt annað upp á teningnum í seinni hálfleik. Töluvert grimmari gestirnir mættu til leiks og voru fljótir að jafna. Með góðum og öguðum sóknarleik sem endaði nánast alltaf í galopnu skoti náðu þeir fljótlega að jafna og komast yfir. Á meðan var sóknarleikur heimamanna hugmyndasnauður og varnarleikurinn ekki nægilega þéttur fyrir. 
 
Það voru því gestirnir sem sigruðu þriðja fjórðung 13-30 og voru komnir í þægilega 10 stiga forystu fyrir síðasta fjórðung leiksins. Njarðvíkingar héldu í við og reyndu hvað þeir gátu að saxa á forskotið en vörnin var þeirra Akkilesarhæll að þessu sinni þar sem FSu náðu nánast alltaf að svara fyrir hverja körfu sem heimamenn skoruðu. Það var ekki fyrr en að 5 mínútur voru eftir að leikmenn UMFN vöknuðu og hófu að verjast betur. Þá hófu þeir að uppskera og náðu loks þegar 21 sekúnda var eftir að jafna leikinn með víti frá Loga Gunnarssyni.
 

FSu hófu síðustu sóknina með því að skafa allan þann tíma sem þeir gátu af klukkunni og svo var dæmt varnarvilla á Ágúst Dearborn sem sumir vildu nú jafnvel telja sóknarvillu. En Vésteinn Sveinsson fór á línuna og setti niður fyrra vítið en klikkaði á því seinna. Þarna höfðu Njarðvíkingar 5 sekúndur en Loga Gunnarssyni misfórst boltameðferðin að þessu sinni og glutraði boltanum útaf þegar tæpar 2 sekúndur voru eftir. Þar með var sigurinn gestanna.
Hjá FSu var Sævar Sigurmundsson í sérflokki með 28 stig, honum næstur var Vésteinn Sveinsson með 19 stig. Hjá Njarðvík mæddi mikið á Loga Gunnarssyni og óvenju mikið þar sem að Magnús Gunnarsson tók út leikbann. Logi skoraði 31 stig. En það var líkast til Friðrik Stefánsson sem var maður þessa leiks með 20 stig , 13 fráköst og 5 stoðsendingar, en það dugði skammt í kvöld.
 
Ungur leikmaður Njarðvíkinga, Valur Orri Valsson var að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki í kvöld aðeins 14 ára gamall og er hann yngsti leikmaður sem spilað hefur í byrjunarliði úrvalsdeildarliðs. Valur komst mjög vel frá sínu og augljóslega að þó svo að piltur eigi margt eftir ólært í boltanum er efniviðurinn til staðar. Genin er svo sem ekki langt að sækja þar sem að Valur Ingimundarson er faðir hans og Kristinn Geir Friðriksson, þjálfari Tindastólsmanna einnig náskyldur pilt (móðurbróðir hans).

Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024