FS meistari framhaldsskóla í knattspyrnu
Fjölbrautaskóli Suðurnesja náði merkum árangri nú á dögunum, þá hafnaði skólinn í 1. sæti í Framhaldsskólamótinu í knattspyrnu karla en mun það vera í fyrsta skipti sem FS hreppir þann titil í karlaflokki en áður hafði skólinn sigrað í kvennaflokki, árið 2008. Úrslitin fóru fram á Ásvöllum í Hafnarfirði síðast liðinn laugardag. Í milliriðli mættu FS, Framhaldsskólanum á Laugum þar sem þeir náðu 3-0 sigri og mættu svo FVA frá Akranesi í hörkuleik sem endaði með 3-2 sigri okkar Suðurnesjamanna.
Með þessum tveimur sigrum var það staðfest að okkar menn komust í úrslitaleikinn og mættu þar sterku liði Garðbæinga úr FG. FS-ingar byrjuðu leikinn sterkt og héldu boltanum vel til að byrja með, hleyptu síðan FG-ingum inn í leikinn og úr varð þessi hörku skemmtilegi fótboltaleikur. Leikurinn var jafn, þar til u.þ.b. 5 mínútur voru eftir af leiknum þegar FS-ingar skoruðu 2 mörk og komust 4-2 yfir. Þeir héldu því forskoti með yfirvegun til loka leiks, þó svo að FG-ingar hafi verið grimmir á lokamínútunum og skorað 1 mark á lokasekúndu leiksins hafði það ekkert að segja. Sigur okkar manna var staðreynd og titillinn í höfn. Liðið var fjölbreytt, skipað leikmönnum úr Grindavík, Keflavík og Njarðvík. Þeir náðu vel saman og allir vel með á nótunum á vellinum.