Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

FS hraustasti framhaldsskólinn á landinu
Guðmundur Ólafsson, Andri Orri Hreiðarsson, Jóhanna Júlía Júlíusdóttir og Helena Ósk Árnadóttir skipuðu lið FS.
Þriðjudagur 20. október 2015 kl. 16:04

FS hraustasti framhaldsskólinn á landinu

- Íslandsmeistarinn í armbeygjum í liði FS

Fjölbrautarskóli Suðurnesja vann um síðustu helgi keppni um hraustasta framhaldsskólann á Íslandi árið 2015. „Þetta var mjög jöfn keppni og margir sterkir einstaklingar sem maður var nú ekkert viss um að maður myndi taka,“ segir Jóhanna Júlía Júlíusdóttir. Auk hennar skipuðu þau Guðmundur Ólafsson, Helena Ósk Árnadóttir og Andri Orri Hreiðarsson lið FS. Þau æfa öll hjá Crossfit Suðurnes og hafa að sögn Jóhönnu góðan bakgrunn úr íþróttum. 

Jóhanna og Guðmundur höfðu reynslu af keppni í Skólahreysti, sem er þrekkeppni grunnskóla. Hún hefur keppt fyrir Myllubakkaskóla og hann fyrir Holtaskóla og tvisvar sinnum staðið uppi sem sigurvegari.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árið 2012 setti Jóhanna Íslandsmet í armbeygjum í Skólahreysti þegar hún gerði hvorki meira né minna en 177 slíkar. „Ég er bara að bíða eftir því að einhver bæti metið,“ segir hún. Á þeim tíma var Jóhanna að æfa sund og var því vön miklum æfingum og þreki. „Þar æfði ég armbeygjur vel. Svo fékk ég líka mikinn stuðning í húsinu sem toppaði þetta allt.“ 

Núna æfir Jóhanna Crossfit sex til sjö sinnum í viku. Hún segir það mjög vinsælt hjá fólki á framhaldsskólaaldri. „Flestir hætta í íþróttum á þessum aldri og fara þá í Crossfit eða aðra líkamsrækt.“

Keppnin um hraustasta framhaldsskóla á Íslandi var sú fyrsta sinnar tegundar og tóku lið frá fimm skólum þátt. Versló lenti í öðru sæti og lið Menntaskólans við Hamrahlíð í því þriðja.