Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Friðrik Stefánsson Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2006
Sunnudagur 31. desember 2006 kl. 15:18

Friðrik Stefánsson Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2006

Körfuknattleiksmaðurinn Friðrik Erlendur Stefánsson er Íþróttamaður Reykjanesbæjar árið 2006 en val á íþróttamanni ársins fór fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Knattspyrnumaðurinn Guðjón Árni Antoníusson var annar í valinu og sundkonan Erla Dögg Haraldsdóttir var í þriðja sæti.

Íslandsmeistarar í íþróttafélögunum í Reykjanesbæ voru heiðraðir í dag og þá fékk sundþjálfarinn Eðvarð Þór Eðvarðsson að gjöf blómavönd og mynd af sér þegar hann varð Íþróttamaður Íslands árið 1986 eða fyrir nákvæmlega 20 árum síðan.

Víkurfréttir fengu hvatningarverðlaun ÍRB í ár fyrir yfirgripsmikla og jákvæða íþróttaumfjöllun. Páll Ketilsson, eigandi og ritstjóri Víkurfrétta, tók við verðlaununum

Eftirfarandi einstaklingar voru íþróttamenn hverrar deildar fyrir sig í Reykjanesbæ:

Guðjón Árni Antoníusson   knattspyrnudeild
Friðrik Stefánsson    körfuknattleikur
Elísa Sveinsdóttir    fimleikadeild
Jóhann R. Kristjánsson    íþróttir fatlaðra    
Elva Björk Margeirsdóttir    hestaíþróttir    
Sævar Ingi Borgarsson    lyftingar     
Erla Dögg Haraldsdóttir   sund
Karen Guðnadóttir     badminton
Bjarni Sigurðsson    skotíþróttir
Helgi Rafn Guðmundsson   taekwondodeild
Örn Ævar Hjartarsson    kylfingur Reykjanesbæjar   
Gylfi Freyr Guðmundsson    vélhjólaíþróttir    

Um Friðrik Stefánsson eða „heimaklettinn“ eins og hann er oft nefndur:

Friðrik Erlendur Stefánsson er fyrirliði Íslandsmeistara UMFN 2006. Liðið vann einnig meistara meistaranna sl vetur. Síðastliðið tímabil var án efa besta tímabil Friðriks enda hlaut hann viðurkenningu sem Besti leikmaður Íslandsmótsins 2006, og var valinn í fimm manna úrvalslið mótsins.

Friðrik skilaði 17 stigum að meðaltali og tók um 11 fráköst. Í úrslitakeppni leiddi hann lið sitt til sigurs í Íslandsmóti en hann gerði 14 stig og tók 10 fráköst að meðaltali í úrslitakeppninni. Friðrik er einnig annálaður sem einn besti varnarmaður deildarinnar og lék stórt hlutverk sem slíkur í meistaraliði. Friðrik var einnig valinn Besti leikmaður UMFN fyrir tímabilið og hann er fastamaður í íslenska landsliðinu og hefur verið einn jafnbesti maður liðsins síðustu árin.

Það sem af er þessum vetri hefur Friðrik leikið mjög vel og jafnvel betur en síðasta tímabil. UMFN tók þátt í Evrópukeppninni í haust og þar var hann jafnbesti maður liðsins, skoraði rúm 18 stig á leik, tók rúm 10 fráköst, auk þess að skjóta 67% úr skotum af velli og 75% af vítalínunni.

VF-mynd/ [email protected]

Hægt er að nálgast fleiri myndir frá valinu á Íþróttamanni Reykjanesbæjar hér í Ljósmyndasafninu á vf.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024