Friðrik Stefánsson á leið í hjartaþræðingu

Landsliðsmiðherjinn Friðrik Erlendur Stefánsson mun ekki leika með Njarðvíkingum í kvöld í undanúrslitum Poweradebikarkeppninnar í körfuknattleik. Friðrik dvaldi stutt á sjúkrahúsi eftir leik Njarðvíkur og ÍR síðasta sunnudag en hann hefur verið að finna til í hjarta þegar hann hefur verið að leika körfuknattleik.

 

Friðrik verður ekki með Njarðvíkingum í kvöld þegar liðið mætir Snæfellingum þar sem leikmaðurinn á að fara í hjartaþræðingu á þriðjudag þar sem kannað verður enn frekar hvað ami að. ,,Það hefur verið vesen í hjartalokum hjá mér sem veldur því að hjartað nær ekki að dæla nægilegu blóði til útlimanna. Eftir leikinn gegn ÍR á sunnudag dvaldi ég á sjúkrahúsi sökum þessa,” sagði Friðrik í samtali við Víkurfréttir.

 

,,Ég hef fundið fyrir þessu þegar ég hef verið að spila en það er ekki von á því að ég fari að hníga niður í leik. Engu að síður fékk ég ekki grænt ljós til þess að spila í kvöld. Ég hef verið frá æfingum síðan eftir leikinn gegn ÍR,” sagði Friðrik en bætti því við að of snemmt væri að segja til um nákvæmlega hver staða mála væri og að haldbærari upplýsingar væri að vænta að hjartaþræðingu lokinni.

 

Friðrik verður á bekknum í kvöld og verður Teiti Örlygssyni innan handar svo þeir félagarnir ættu að geta komið fram með illviðráðanlegt leikskipulag enda rúmlega 200 landsleikja reynsla á baki þeirra samanlögð.

 

Mynd: Gunnar Freyr Steinsson – gunni@mikkivefur.isFriðrik situr á gólfi Ljónagryfjunnar á þarsíðustu leiktíð þar sem hann féll í vægt yfirlið í leik Njarðvíkur og ÍR í úrslitakeppninni. Á myndinni er Friðrik sestur upp og er að jafna sig. Friðrik sagði í samtali við Víkurfréttir að á þessum tíma hefði hann ekki áttað sig á því hvað hefði gerst.

 

jbo@vf.is