Friðrik Ragnarsson: Verður ekki vinsælt að mæta okkur
Bikarmeistarar Grindavíkur tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitum Lýsingarbikars karla í körfuknattleik með 100-76 sigri á KR B. Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindvíkinga, segir að þegar liðið hefur slípað sig til á næstu tveimur vikum verði þeir ekki vinsælir mótherjar. Að morgundeginum loknum gengur í garð hlé á deildar- og bikarkeppninni í körfuboltanum þar sem Stjörnuleikurinn 2007 fer fram laugardaginn 13. janúar næstkomandi.
,,Í gær unnum við lið sem heitir KR B og það lið myndi sóma sér vel í úrvalsdeildinni. Þetta lið er jafnvel betra en mörg hver úrvalsdeildarlið og ég er ekkert að grínast með það,” sagði Friðrik í samtali við Víkurfréttir. ,,Við vorum mun betri í gær en við höfum verið í undanförnum leikjum,” sagði Friðrik en Grindvíkingar höfðu tapað fimm deildarleikjum í röð fyrir leikinn gegn KR B í gær.
,,Við ætlum okkur bara að þokast rólega upp töfluna í deildinni og halda okkur inni í bikarnum, þar þurfum við bara að vinna tvo leiki til þess að verða Bikarmeistarar,” sagði Friðrik sem var ánægður með Calvin Clemmons í gær. ,,Hann hefur lítið sem ekkert spilað síðustu 10 mánuðina en ég var ánægður með hann. Þegar við erum búnir að slípa okkur betur saman á næstu æfingum og bæta okkur um eitt eða tvö level þá verður ekki vinsælt að mæta okkur,” sagði Friðrik að lokum.