Friðrik Ingi tekur við kvennaliði Keflavíkur og Maggi Gun áfram til aðstoðar karlaliðs
Körfuknattleiksdeild Kelfavíkur birti rétt í þessu fréttatilkynningu á Facebook-síðu sinni.
Í morgun var gengið frá tveggja árum samningum við þá Friðrik Inga Rúnarsson og Magga Gun.
Friðrik Ingi sem flestir ættu að kannast við þekkir körfuboltann hér á landi betur en flestir og það er mikil ánægja í okkar herbúðum að fá þennan mæta mann aftur á gólfið. Að sama skapi er hann fullur tilhlökkunar að taka við stelpunum okkar og hefja þá vegferð að verja titla.
„Það er mikill heiður að fá að taka við keflinu af Sverri. Þrír titlar í hús á nýliðnu tímabili og það verður í senn krefjandi en afar skemmtilegt verkefni. Það má segja að ég sé kominn í mekka kvennakörfuboltans á Íslandi, við erum með frábært lið og við stefnum að sjálfsögðu á að verja alla bikara sem nú eru staðsettir í Blue Höllinni.“
Maggi Gun kom afar vel inn í hóp strákanna okkar rétt fyrir bikarúrslitin. Hann og Pétur áttu gott samstarf síðustu mánuði tímabilsins og því engin ástæða til annars en að framlengja því.
„Ég hafði mjög gaman af því að koma inn í þetta verkefni í vetur. Pétur kom með ferskan blæ inn í okkar félag og náði að byggja upp skemmtilegt lið. Það er mér sönn ánægja að taka þátt í þessu með honum og leikmönnum og við stefnum hátt næsta tímabil.“
Frekari tíðinda má svo vænta á næstu dögum og vikum af leikmanna- og þjálfaramálum.