Friðrik Ingi samdi við Njarðvík
Þjálfar karla- og kvennalið UMFN
Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur undirritaði í dag samning til fimm ára við Friðrik Inga Rúnarsson um þjálfun meistaraflokks kvenna og karla hjá félaginu. Frá þessu er greint á heimasíðu Njarðvíkur en áður höfðu Víkurfréttir sagt frá málinu.
Friðrik er þaulreyndur þjálfari en hann hefur unnið 7 titla sem þjálfari í efstu deild. Þjálfunarferilinn hóf hann 16 ára gamall í yngri flokkunum, tók við meistaraflokki kvenna hjá Njarðvík 18 ára en 21 árs tók hann við þjálfun meistaraflokks karla. Síðar þjálfaði hann einnig lið Grindavíkur og KR í úrvalsdeild auk þess að hafa verið landsliðsþjálfari karlaliðs Íslands.
„Ég tek við virkilega góðu búi frá Einari Árna og verkefnin framundan eru afar spennandi og krefjandi en jafnframt eru spennandi tímar í kvennastarfinu þar sem iðkendafjöldi hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum.“ sagði Friðrik eftir undirritunina. „Umgjörðin hér í Njarðvík er til fyrirmyndar og það verður gaman að halda áfram því góða starfi sem hefur verið bæði í karla- og kvennakörfunni og byggja ofan á það til framtíðar.“