Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 2. júlí 1999 kl. 00:22

FRIÐRIK INGI RÁÐINN LANDSLIÐSÞJÁLFARI

Körfuknattleikssamband Íslands tilkynnti á blaðamannafundi síðdegis í gær að Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari bikarmeistara Njarðvíkur, hefði verið ráðinn landsliðsþjálfari í stað Jóns Kr. Gíslasonar en samningur KKÍ við Jón Kr. rann út fyrr í sumar. Auk þess að verða þjálfari A-landsliðsins mun Friðrik starfa sem fræðslufulltrúi KKÍ og þjálfa úrvalsdeildarlið Njarðvíkinga. „Þetta er mjög spennandi og enn eitt skrefið á framabrautinni í þjálfuninni. Þetta er toppurinn á ísjakanum í boltanum hérlendis og ég mjög ánægður að mitt nafn skyldi koma svona sterkt upp á borðið hjá forráðamönnum KKÍ. Þetta var þó ekki markmið í sjálfu sér því ég hef einbeitt mér að þeim verkefnum sem fyrirliggjandi hafa verið. Nú hefst undirbúningur fyrir undankeppni úrslitakeppni Evrópumótsins í Tyrklandi 2001 sem fram fer í nóvember og þessa dagana er verið að athuga með landsleiki í september. Einhverjir landsliðsmenn eru að fara erlendis í atvinnumennsku og mun ég því reyna að kalla hópinn saman áður þeir fara út og viðra mínar hugmyndir“. Þetta er 100% starf og breytir lífsmunstri þínu talsvert. Telurðu að þetta komi til með að hafa áhrif á störf þín sem þjálfara Njarðvíkurliðsins? „Ég kem til með sakna Njarðvíkurskóla þar sem ég hef starfað í sex ár en mér lýst líka ágætlega á starf fræðslustjóra og skemmtilegt að fá að taka þátt í að þróa þessa hlið körfuknattleiksins. Fullt samkomulag er á milli KKÍ og knd. UMFN um að ég haldi áfram þjálfun Njarðvíkurliðsins. Ég er orðinn allvel sjóaður í þjálfaramálunum og á ekki von á að til árekstra komi. Þetta snýst allt um góða skipulagningu.“ BESTI KOSTURINN Í STÖÐUNNI „Samningur KKÍ við Jón Kr. Gíslason var útrunninn. Við skoðuðum nokkra möguleika bæði hérlendis og erlendis og var Jón Kr. einn þeirra sem kom til greina. Að öllu samanlögðu fannst okkur Friðrik besti kosturinn í stöðuna. Jón hefur verið þjálfari í 4 ár og engin ágreiningur um störf hans en okkur fannst kominn tími til breytinga. Friðrik er þjálfari í fremstu röð auk þess sem það er kostur að hann er þjálfari í 100% starfi þó það hafi ekki haft nein úrslitaáhrif á val stjórnar KKÍ“ sagði Pétur Hrafn Sigurðsson framkvæmdastjóri KKÍ. KOM MÉR MJÖG Á ÓVART Jón Kr. Gíslason, fyrrverandi landsliðsþjálfari sagði ráðningu Friðriks hafa komið sér í opna skjöldu. „Ég fékk tilkynningu um það frá KKÍ í gærkveldi að annar maður hefði verið ráðinn landsliðsþjálfari í minn stað. Stuttu eftir komuna heim frá Slóvakíu sat ég fund með formanni KKÍ, formanni landsliðsnefndar og framkvæmdastjóra KKÍ þar sem mér var tilkynnt að einhugur væri um að endurráða mig sem landsliðsþjálfara. Fyrir síðustu helgi var ég boðaður á fund þar sem skoðaðir voru ýmsir möguleikar þ.m.t möguleikinn á fullu starfi hjá KKÍ sem landsliðsþjálfari og við fræðslustörf. Einnig ræddum við launakröfur og bjóst ég við að fá svör frá þeim innan fárra daga þar sem ég taldi mig fyrsta valkostinn í stöðuna. Ég verð að segja það að ég taldi líkurnar mín megin og þessi ákvörðun KKÍ kemur mér í opna skjöldu þó ég viti vel að fallvalt er gengið í þjálfarabransanum“ sagði Jón Kr. Gíslason. Nú var Friðrik Ingi aðstoðarþjálfari þinn síðasta veturinn. Finnst þér þú svikinn af aðstoðarþjálfaranum? „Ég ætla mér ekki að tjá mig um þessa hlið málsins, hvorki nú né síðar. Nú þegar hafa nokkrir landsliðsmenn haft samband og lagt inn hvatningarorð sem ég met mikils.“ Landslið Íslendinga í körfuknattleik hefur aðeins tvisvar komist í undanúrslitariðla Evrópukeppninnar í körfuknattleik og hefur Jón Kr. verið þjálfari liðsins í bæði skiptin.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024